Home / Fréttir / Daesh segist hafa staðið að hryðjuverki í Berlín – grunuðum Pakistana sleppt- morðingjans leitað

Daesh segist hafa staðið að hryðjuverki í Berlín – grunuðum Pakistana sleppt- morðingjans leitað

Hér sést yfir svæðið í Berlín þar sem hryðjuverkið var framið mánudaginn 19. desember.
Hér sést yfir svæðið í Berlín þar sem hryðjuverkið var framið mánudaginn 19. desember.

Daesh-samtökin (Ríki íslams) hafa gefið til kynna að hryðjuverkið í Berlín að kvöldi mánudags 19. desember hafi verið á þeirra ábyrgð. Þá var stórum flutningabíl ekið inn í jólamarkað skammt frá brautarstöðinni Zoologischer Garten í miðborg Berlínar. Sagði í tilkynningu hryðjuverkasamtakanna sem Amaq-fréttastofan birti að kvöldi þriðjudags 20. desember að markmiðið hefði verið að „ná til borgara krossfarabandalagsins“.Við áreksturinn féllu 12 manns og 48 særðust, þar af 18 alvarlega.

Manni sem var handtekinn skömmu eftir atburðinn grunaður um aðild að hryðjuverkinu var sleppt að kvöldi þriðjudags 20. desember.

Handtekinn var 23 ára Pakistani Naved B. að nafni. Hann kom til Þýskalands eftir Balkan-leiðinni svonefndu 31. desember 2015. Hann neitaði staðfastlega allri aðild að hryðjuverkinu, að sögn lögreglu. Þá fundu rannsakendur ekki neitt sem benti til sektar mannsins.

Í farþegasæti flutningabílsins fannst maður sem skotinn hafði verið til bana. Morðvopnið er ófundið en sá látni er talinn hafa unnið fyrir pólska flutningafyrirtækið sem á bílinn. Talsmaður fyrirtækisins segir að ekkert hafi heyrst til bílstjórans síðan klukkan 16.00 mánudaginn 19. desember, fjórum tímum fyrir árásina.

Holger Münch, yfirmaður sambands-rannsóknarlögreglunnar (BKA),  sem stjórnar rannsókninni sagði þriðjudaginn 20. desember: „Við vitum ekki hvort ofbeldismaðurinn var að einn. Morðvopnið er ófundið. Þess vegna búum við okkur undir hið versta.“

Á vefsíðu Der Spiegel segir að Pólverjinn hafi verið skotinn í höfuðið og myrtur áður en bílnum var ekið inn á jólamarkaðinn.

Flutningabíllin nam staðar skammt frá Kaiser Wilhelm-minningarkirkjunni. Þar stendur hálf-hruninn kirkjuturn við hlið nýlegrar kirkju. Er turninn til áminningar um hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Sjónarvottur segist hafa séð mann stökkva úr ökumannssæti bílsins og flýja af hólmi. Sjónarvotturinn elti manninn og kallaði á lögregluna. Það leiddi til þess að Narved B. var handtekinn ekki langt frá Sigursúlunni sem er í miðjum nálægum Tiergarten.

Í Der Spiegel segir að sjónarvotturinn hafi raunar misst sjónar á manninum áður en hann hringdi í lögregluna og ekki gert annað en gefa almenna lýsingu á ökumanninum. Þessi lýsing hafi leitt til handtöku á Naved B. við Sigursúluna. Fyrstu fréttir voru á þann veg að ætla mátti að sjónarvotturinn hefði getað elt manninn þar til hann var handtekinn.

Í Der Spiegel segir að lögregla hafi ekki fundið nein merki um leifar af byssuskoti á fötum grunaða mannsins, slíkar leifar finnist jafnan á þeim sem hleypt hafi af skoti úr byssu. Þá benti ekkert til að hann hefði lent í átökum. Auk þess hefðu blóði drifin föt fundist í ökumannshúsi flutningabílsins en ekki nein merki um blóðdropa á fötum Naveds B.

Síðdegis þriðjudaginn 20. desember var haft eftir háttsettum öryggisforingja í dagblaðinu Die Welt í Berlín: „Við erum með rangan mann.“ Hann sagði stöðu málsins hafa breyst því að „raunverulegi ofbeldismaðurinn“ væri enn „frjáls og vopnaður, hættulegur öðrum“.

Líkindi eru með þessu ódæði og hryðjuverkinu í Nice í Frakklandi 14. júlí 2016, þar voru 86 drepnir og hundruð særð af bílstjóra flutningabíls sem ók inn í mannfjölda sem fagnaði þjóðhátíðardegi Frakka.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …