Home / Fréttir / Daesh lítur á fjöldamorðin í Orlando sem uppslátt fyrir sig á tíma undanhalds í Írak og Sýrlandi

Daesh lítur á fjöldamorðin í Orlando sem uppslátt fyrir sig á tíma undanhalds í Írak og Sýrlandi

Abou Mohammed al-Adnani, talsmaður Daesh, hvetur til ofbeldisverka í ramadan-mánuðinum.
Abou Mohammed al-Adnani, talsmaður Daesh, hvetur til ofbeldisverka í ramadan-mánuðinum.

 

Fjöldamorðin í Orlando eru uppsláttur fyrir Ríki íslams (RÍ) einnig nefnt Daesh. hryðjuverkasamtökin sem hafa orðið að hörfa frá mörgum þorpum í Sýrlandi og Írak að undanförnu.

Hvort sem fyrirmæli um að fremja ódæðið komu frá Daesh eða öfgafull hugmyndafræði samtakanna varð til að ódæðismaðurinn í Orlando lét til skarar skríða og felldi 49 manns með hríðskotabyssu og skammbyssu aðfaranótt sunnudags 12. júní hefur voðaverkið orðið til að minna á að hryðjuverkasamtökin geta ýtt undir grimmd „einmana úlfa“ sem brýst út í aðför að samferðarfólki þeirra.

Í franska blaðinu Le Figaro er vitnað í Ali Soufan, fyrrverandi starfsmann bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem segir:

„Þótt þeir sem bera ábyrgð á öryggi borgaranna geri ráðstafanir gegn þaulskipulögðum árásum sem reistar eru á flóknum búnaði, sprengjum og alþjóðlegum fjarskiptakerfum ætti mesta áhyggjuefni okkar að vera að koma í veg fyrir árásir sem krefjast minni undirbúnings eins og þá sem gerð var í Orlando.“

Í franska blaðinu er rifjað upp að áður en ramadan-mánuður múslima hófst mánudaginn 6. júní hafi talsmaður Daesh hvatt unga múslima til að sjá til þess að mánuðurinn yrði hamfara- eða þjáningartími fyrir hina trúlausu hvort sem er í Evrópu eða Bandaríkjunum.

Allt frá því að kalifat RÍ kom til sögunnar sumarið 2014 hafa forystumenn þess hvatt til að beitt yrði aðferð sem kennd er við „eimana úlf“, það er að einstaklingur grípi til vopna gegn samborgurum sínum þegar þeir eiga sér einskis ills von eins og var á skemmtistaðnum í Orlando. Þessari aðferð skuli beitt gegn þeim sem RÍ kallar „krossfarana“ og lítur á sem helstu óvini sína. „Biðjið engan um leyfi. Mikilvægt er að morðin séu framin í nafni RÍ svo að fjölmiðlar krossins þurfi ekki að geta sér til um neitt,“ sagði talsmaður Daesh.

Í þessu ljósi lítur Daesh á fjöldamorðin í Orlando sem uppslátt fyrir sig. Þau sýni að öfgahyggja samtakanna nær langt út fyrir landið sem þau ráði og ítök hennar minnki ekki þótt hörfa verði frá þorpum og bæjum í Írak og Sýrlandi eða þeim fjölgi í Evrópu og Bandaríkjunum sem teknir eru höndum fyrir að aðhyllast kenningar samtakanna.

Mohammed al-Adnani, talsmaður Daesh, spurði í útsendingu sem var hljóðrituð 21. maí 2016: „Höfum við tapað þótt við missum Mósul, Syrte eða Raqqa? Nei. Tapið felst í að glata viljanum til að berjast.“

Í fyrri viku drap ungur Jórdani fimm leyniþjónustumenn í flóttamannabúðum Palestínumanna í Baqaa, skammt frá Amman, höfuðborg Jórdaníu. Hann var undir áhrifum frá Daesh. Sama er að segja um Bandaríkjamanninn Mohammad Youssef Abdulazeez sem drap fimm hermenn í júlí 2015 í Chattanooga í Tennessee í Bandaríkjunum.

Í desember 2015 féllu 14 manns í hryðjuverki sem unnið var í San Bernardino í Bandaríkjunum. Eftir það varaði Barack Obama við því að hryðjuverkaógnin „þróaðist á nýtt stig“ þar sem beitt væri einföldum árásaraðferðum.

Omar Mateen, ódæðismaðurinn í Orlando, notaði lokamínútur lífs síns til að hafa samband við neyðarlínuna í Bandaríkjunum, 911, til að tilkynna hollustu sína við Daesh. Hann eins og ódæðismennirnir í San Benardino virðist hafa látið afvegaleiðast vegna öfgahyggju og persónulegra hatursskoðana.

Að kvöldi mánudags 13. júní drap maður sem lýsti hollustu við Daesh lögregluforingja og eiginkonu hans í Magnanville í  Yvelines, skammt frá París. Hann beitti eggvopni en þyrmdi 3 ára gömlu barni hjónanna áður en lögreglan felldi hann á heimili lögregluforingjans. François Hollande Frakklandsforseti kallaði þjóðaröryggisráð Frakklands saman vegna illvirkisins.

Um 90.000 manns gæta nú almannaöryggis í Frakklandi vegna EM 2016. Hættan af „einmana úlfum“ er fyrir hendi þar og áherslan á öryggisgæslu magnast eftir það sem gerðist í Orlando og morðið á lögregluforingjanum og konu hans.

Heimild: Le Figaro.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …