
Flugmenn víða um Þýskaland neita að fljúga úr landi með hælisleitendur sem hefur verið brottvísað. Þetta kemur fram í upplýsingum sem vinstri flokkurinn, Die Linke, hefur aflað frá stjórnvöldum. Þar segir að alls hafi verið hætt við 220 flug vegna þess að flugmenn hefðu ekki viljað láta draga sig inn í deilur vegna ákvarðana um brottvísun hælisleitenda frá Afganistan. Landið hefur nú verið lýst „öruggt upprunaland“ þrátt fyrir að enn sé víða tekist á með vopnum þar fyrir utan kúgun og harðræði.
Flugmenn Lufthansa og Eurowings neituðu um 85 sinnum að fljúga frá janúar til september 2017. Oftast var neitað að fljúga frá flugvellinum í Frankfurt um 140 sinnum.
Þótt farið sé með fleiri brottvísaða úr landi en áður hefur Þýskaland enn sem fyrr mesta aðdráttarafl fyrir flótta- og farandfólk sem leitar inn í Evrópusambandið. Fjöldinn er svo mikill að fram til þessa hafa Þjóðverjar á árinu 2017 afgreitt fleiri hælisumsóknir en allar hinar 27 ESB-þjóðirnar samtals.
Die Welt vísar til tölfræðistofnunar ESB, Eurostat, og segir að þýska stofnunin sem fer með mál farand- og flóttafólks, BAMF, hafi afgreitt 388.201 mál á fyrstu sex mánuðum ársins 2017.
Eftir því sem brottvísunum fjölgar í Þýskalandi því fleiri áfrýja afgreiðslu máls síns til æðra stjórnvalds. Dómarar tóku afstöðu til næstum helmings allra mála sem BAMF afgreiddi á fyrri helmingi ársins. Í 75% tilvika féllust dómararnir á niðurstöðu BAMF.
Til að draga úr áfrýjunum og hraða brottflutningi þeirra sem ber að yfirgefa Þýskaland er stefnt að því að í febrúar 2018 taki gildi nýjar reglur sem fela í sér að þeir sem hefur verið neitað um hæli geti fengið 3.000 evrur (370.000 ISK) greiddar samþykki þeir brottflutning.
Talið er að um 226.000 útlendingar séu í Þýskalandi þrátt fyrir að þeim hafi verið brottvísað. Undanfarin þrjú ár hafa 1,5 milljón útlendingar leitað verndar í Þýskalandi.
Þrjár ástæður ráða því hve fáir hverfa úr landi þótt þeim beri að gera það. Í fyrsta lagi kunna þeir að öðlast rétt til dvalar ef dregst úr hömlu að koma þeim úr landi. Í öðru lagi áfrýja margir höfnun hælisumsóknarinnar og er þeim ekki skylt að fara fyrr en málið hefur fengið endanlega afgreiðslu. Í þriðja lagi hverfa hælisleitendurnir einfaldlega af „ratsjá“ yfirvalda. Óljóst er hve stór hópur þetta er.
Hælisleitendur sem hverfa kunna að hafa haldið til annars lands eða snúið aftur til heimalands síns án tilkynningar til þýskra yfirvalda. Þá er einnig hugsanlegt að viðkomandi sé í felum í Þýskalandi og stundi þar „svarta vinnu“ til að afla tekna til eigin framfærslu og gistingar hjá vini eða kunningja.
Loks ber að geta þeirra sem koma til Þýskalands á ólögmætan hátt án þess nokkru sinni að skrá sig hjá yfirvöldunum. Fjölmennari eru þó þeir sem hafa á einhverju stigi haft samband við yfirvöld en hverfa síðan sjónum þeirra.
Í þessum hópi eru ferðamenn, námsmenn eða launþegar sem dveljast áfram í Þýskalandi eftir að dvalarheimild þeirra er útrunninn. Þarna kann einnig að finnast farandfólk sem reynir að komast inn í landið á grundvelli hælisreglna en óttast síðan brottvísun og lætur sig því einfaldlega hverfa án þess að hafa samband við yfirvöld.