
Hér var mánudaginn 1. ágúst sagt frá skýrslu sem Center for Strategic & International Studies (CSIS), rannsóknarstofnun og hugveita í Washington, sendi frá sér undir lok júlí 2016 og ber heitið: Undersea Warfare in Northern Europe.
Fréttin hér á síðunni hefur vakið athygli og umræður í öðrum fjölmiðlum og hefur hún af sumum verið túlkuð á þann veg að í henni sé hvatt til þess að Bandaríkjastjórn opni að nýju herstöð á Keflavíkurflugvelli. Þessi túlkun er röng eins og sést af þessum texta undir lok skýrslunnar á bls. 40:
„Það er hluti af fjárlagatillögum varnarmálaráðuneytisins að ætla að hefja að nýju kafbátaleitarflug frá fyrrverandi flotastöðinni í Keflavík á Íslandi með því að senda þangað reglulega flugsveit. Í Keflavík var lykilaðstaða fyrir eftirlitsflugvélar flotans í kalda stríðinu. Nálægðin við GIUK-hliðið tryggði að vélarnar þurftu ekki langan tíma til að komast á eftirlitssvæðið og gátu því stundað eftirlitsflug lengur en ella. Bandaríkjastjórn lokaði stöðinni á fyrsta áratug 21. aldar. Þar sem almenn geta til að halda úti flugeftirliti á hafinu hefur minnkað verulega í Evrópu ætti NATO að kanna hvaða bandalagsþjóðir geta tekið höndum saman við Bandaríkjamenn í Keflavík og einnig sent flugvélar þangað reglulega til eftirlitsstarfa. Hvers kyns umsvif NATO á Keflavíkurflugvelli verða líklega lítil þar sem þetta er einnig helsti alþjóðaflugvöllur Íslendinga.
Æskileg áhrif: Aukið eftirlitsflug í GIUK-hliðinu með því að skapa aðstöðu fyrir flugvélar í nágrenni þess. Auðvelt er að samhæfa aðgerðir frá Keflavík við störf á nálægum bækistöðvum eftirlitsflugvéla í Bretlandi og Noregi.“
Þarna er í raun ekki hvatt til annars en að haldið verði úti reglulegu kafbátaleitarflugi frá Keflavíkurflugvelli, Bandaríkjamenn beri hita og þunga þess en leitað verði til Evrópuríkja að senda einnig flugvélar til þátttöku í því. Ekki er gert ráð fyrir fastri viðveru leitarflugvélanna heldur verði þær sendar til skemmri dvalar í Keflavík og skiptist á að vera þar. Orðin um takmörkuð umsvif NATO vegna annarrar starfsemi á Keflavíkurflugvelli sýna að ekki er um neina hugmynd um nýja herstöð að ræða í skýrslunni.
Minnt er á að í fjárlagatillögum bandaríska varnarmálaráðuneytisins fyrir árið 2017 sé gert ráð fyrir að aðstaða verði sköpuð fyrir nýja gerð kafbátaleitarvélar, Boeing Poseidon P-8 vélar í Keflavík. Til þess að þær geti athafnað sig hér þarf meðal annars að breyta flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli.
Þeim sem fylgst hafa með umræðum um aukið hernaðarlegt mikilvægi Íslands og aðstöðu hér á landi kemur í raun ekkert á óvart sem segir um Keflavík í CSIS-skýrslunni. Þar er hins vegar að finnan annan og mikinn fróðleik um aukin kafbátaumsvif við Norður-Evrópu undanfarin misseri og áhrif nýrrar sóknar rússneskra kafbáta á öryggismat í NATO-ríkjunum og samstarfsríkjum þeirra, Finnlandi og Svíþjóð.
Höfundar nýju skýrslunnar eru fjórir: Kathleen H. Hicks, Andrew Metrick, Lisa Sawyer Samp og Kathleen Weinberger. Þau nutu aðstoðar sérfræðinga í Bretlandi, Finnlandi, Póllandi og Svíþjóð við gerð skýrslunnar og fengu fjárstuðning frá Saab North America. Hér er því um úttekt fræðimanna að ræða og tillögur þeirra til bandarískra yfirvalda en skýrslan endurspeglar ekki afstöðu yfirvaldanna.
Center for Strategic & International Studies (CSIS) hefur starfað í rúm 50 ár og lagt sig fram um að fá færustu sérfræðinga á ýmsum sviðum öryggis- og alþjóðamála til að leggja mat á og móta hugmyndir um lausn á helstu viðfangsefnum samtímans. CSIS starfar óháð bandarískum stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum og allt sem frá stofnuninni kemur er á ábyrgð höfunda þess efnis sem kynnt er hverju sinni.