
NATO og samstarfsriki bandalagsins geta ekki á þessari stundu brugðist með skömmum fyrirvara við umsvifum Rússa neðansjávar á stórum hluta Norðir-Atlantshafs og Eystrasalti segir í nýrri skýrslu frá Center for Strategic & International Studies (CSIS) sem kynnt var fyrir rúmri viku í Washington. Í skýrslunni er lagt til að Bandaríkjastjórn hefji að nýju kafbátaleit frá Keflavíkurflugvelli og þar verði stofnað til samstarfs við Svía og Finna um varnir gegn kafbátum.
„Olavsvern, fyrrverandi stöð norska flotans, er kjörin til stuðnings við aðgerðir kafbáta nyrst í Norður-Atlantshafi og í Norður-Íshafi,“ segir einngi í skýrslu rannsóknarhóps á vegum CSIS sem hefur kannað frá því í fyrrahaust hvernig bregðast skuli við stórauknum ferðum rússneskra kafbáta.
Olavsvern var neðanjarðar-stjórnstöð norska flotans skammt frá Tromsö í Norður-Noregi til ársins 2008. Stöðin var seld fyrirtækinu Triko AS í febrúar 2013 og nýtir fyrirtækið aðstöðuna fyrir starfsemi sína sem felst meðal annars í samvinnu við rússneska orkurisann Gazprom.
Í skýrslu CSIS er þessi ráðstöfun á Olavsvern gagnrýnd en Øystein Bø, varavarnarmálaráðherra Noregs, segir við Barents Observer fimmtudaginn 28. júlí að ekki sé þörf á að taka stöðina eignarnámi fyrir norska flotann, hann hafi fengið stöðvar annars staðar. Olavsvern sé nú í einkaeign og ríkið ráði engu um hvernig stöðin sé notuð. Telji einhverjir að þar sé ekki rétt staðið að málum beri að kæra það til lögreglu.
Í kalda stríðinu notuðu kafbátar norska flotans og flota annarra NATO-ríkja Olavsvern sem birgða- og þjónustustöð vegna siglinga í Noregs- og Barentshafi. Þaðan var stutt að komast til hafdjúpa Noregshafs, siglingaleiðar rússneskra kafbáta. Þá var Olavsvern næsta flotastöð NATO við kafbátastöðvar Rússa á Kóla-skaganum fyrir vestan Múrmansk.
Norskir fjölmiðlar skýrðu frá því fyrir skömmu á starfshópur á vegum bandaríska flotans hefði nýlega heimsótt flugvellina á Andøya og Evenes í Norður-Noregi. Tilgangurinn var að kanna hvort aðstaða á völlunum hentaði bandarískum Boeing P-8 Poseidon kafbátaleitarvélum. Ráðgert er að ráðist verði í endurbætur á Keflavíkurflugvelli til að tryggja að aðstaðan á öryggissvæðinu þar falli að kröfum vegna þessara bandarísku véla.