Home / Fréttir / CSIS: Nýtt ístjald, ný skýrsla um framgöngu Rússa í Norður-Íshafi

CSIS: Nýtt ístjald, ný skýrsla um framgöngu Rússa í Norður-Íshafi

 

Heather Conley
Heather Conley

Rússar tóku upp „útilokunar-afstöðu“ á Norður-Íshafi í fyrra með meiri hervæðingu, sókn eftir stærra yfirráðasvæði og þjóðrembu í málflutningi segir í nýrri skýrslu frá hugveitunni Center for Strategic and International Studies (CSIS) í Washington sem ber heitið The New Ice Curtain – Nýja ístjaldið. Höfundar skýrslunnar eru Heather Conley, deildarstjóri Evrópumála hjá stofnuninni, og Caroline Rohloff, sérfræðingur hjá CSIS. Skýrslan er 116 bls. og kom út 27. ágúst sl.

Í skýrslunni er hvatt til þess að aðildarríki Norðurskautsráðsins komi sér saman um aðgerðir til að vekja traust þeirra á milli á sviði hernaðar, til dæmis með reglu um að tilkynnt skuli um væntanlegar heræfingar með 21 dags fyrirvara. Í ár efndu Rússar fyrirvaralaust til heræfinga með þátttöku rúmlega 45.000 manna.

Við kynningu á skýrslunni sagði Heather Conley: „Hervæðing er hafin á Norður-Íshafi og ekki er fyrir hendi neinn vettvangur eða staður þar sem rætt er um öryggismál á svæðinu eða til að stuðla að meira gagnsæi pg trausti milli ríkja. Staðan er allt önnur núna en fyrir ári eða einu og hálfu ári.“

Lagt er til að komið verði á fót sameiginlegum starfshópi Bandaríkjamanna og Rússa til að tryggja öryggi í Bering-sundi og þá verði bandaríska strandgæslan og rússneskar stofnanir að samræma aðgerðir vegna skipaferða um sundið. Bent er á að í haust standi til að koma á fót Arctic Coast Guard Forum, samstarfsvettvangi þeirra sem halda uppi strandgæslu á Norðurskautssvæði, Norðurskautsvettvangi um strandgæslu. Þar gefist mikilvægt tækifæri til að „halda sambandi“ við rússneska embættismenn á tímum þegar ekki sé kostur á samstarfi við rússnesk hernaðaryfirvöld.

Höfundar skýrslunnar telja að sókn Rússa á Norður-Íshafi skýrist að nokkru af vaxandi þjóðerniskennd en einnig af sókn Kínverja inn á svæði Rússa í norðri. Vitnað er í Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, sem hafi sagt fyrr á árinu „ýmis þróuð ríki sem ekki eiga beinan aðgang að heimskautasvæðunum sækjast af þrjósku eftir að komast inn á Norður-Íshaf“.

Minnt er á að Rússar líti á Norðurleiðina, siglingaleiðina við íshafsströnd sína, sem „innsævi“ og heimti gjald af skipum sem nota hana, aðrar þjóðir telji leiðina hins vegar opna öllum. Nýleg atvik tengd Kínverjum á leiðinni séu til marks um að hugsanlega komi til árekstra milli Rússa og Kínverja vegna ferða kínverskra skipa þótt málið sé „lítið rætt“ á líðandi stundu.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …