Home / Fréttir / COVID-19: Hraðhlaup í bóluefnarannsóknum

COVID-19: Hraðhlaup í bóluefnarannsóknum

55d3-8e39-5acc-a32a-bf907ed4b3a6-4817648

Bóluefni gegn COVID-19 er komið á loka-tilraunastig og vinna við það lofar góðu segir Dr. Anthony Fauci, smitsjúkdómafræðingur Bandaríkjastjórnar. „Hvernig sem málið er skoðað, eru þetta góðar fréttir,“ sagði hann.

Bandaríska heilbrigðisstofnunin National Institutes of Health og fyrirtækið Moderna Inc. hafa unnið að þróun efnisins og hefst lykiltilraun í kringum 27. júlí með þátttöku um 30.000 einstaklinga til að komast að raun um hvort efnið sé nógu sterkt til varnar gegn kórónuveirunni.

Alls 45 sjálfboðaliðar tóku þátt í upphafstilraun með bóluefnið og þá sáu vísindamenn að ónæmiskerfi þeirra styrktist við sprautuna.

Þetta fólk var bólusett í mars og það myndaðist mótefni í blóði þess sem var af svipuðum styrkleika og hjá þeim sem höfðu náð sér eftir COVID-19 að því er segir í grein rannsóknarhópsins í læknaritinu New England Journal of Medicine.

Dr. Lisa Jackson við Kaiser Permanente Washington Research Institute í Seattle stjórnar rannsókninni og segir hún að fyrsta tilraunin hafi skapað forsendur til að láta í raun á það reyna hvort bóluefnið veiti vörn gegn veirunni.

Ekkert er fast í hendi en stjórnvöld vona að niðurstöður liggi fyrir í árslok. Verði svo yrði um hraðamet við gerð á bóluefni að ræða.

Meiri en helmingur sjálfboðaliðanna sagðist hafa orðið var við flensueinkenni – þreytu, höfuðverk, hroll og hita – þetta gerist einnig eftir bólusetningu við öðrum sjúkdómum. Stjórnendur rannsóknarinnar segja að einkennin vari að minnsta kosti í einn dag og þeirra verði vart strax eftir bólusetninguna.

Tilkynning frá Rússum

Rússar tilkynntu miðvikudaginn 15. júlí að þeir hefðu lokið fyrstu klínísku tilraununum með bóluefni á vegum varnarmálaráðuneytisins og rannsóknarstofu sem kennd er við Nikolai Gamalaja.

Tilraunir á hermönnum og almennum borgurum hófust um miðjan júní. Fyrsti 18 manna hópur sjálfboðaliða hefur lokið þátttöku sinni og yfirgefið sjúkrahúsið sagði í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins 15. júlí.

Sjálfboðaliðarnir voru 28 daga í sjúkrahúsi eftir bólusetninguna og voru daglega skoðaðir. Líkami þeirra starfaði „innan eðlilegra marka“ á þessum tíma án „alvarlegra neikvæðra áhrifa eða vandræða,“ sagði ráðuneytið.

„Ónæmi þeirra er gott, mótefni myndast og þau eru vernduð gegn kórónuveirunni,“ sagði Svetlana Voltsjíkhina, stjórnandi tilraunarinnar, í myndskeiði frá varnarmálaráðuneytinu.

Nú er unnið að gerð á þriðja tug COVID-19-bóluefna víðs vegar um heim og eru rannsóknir og tilraunir á mismunandi stigum. Í Kína og Oxford-háskóla segja vísindamenn að þeir séu að komast á lokastig tilrauna.

 

Heimild: Euronews

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …