Home / Fréttir / COVID-19 herjar á áhafnir flugmóðurskipa

COVID-19 herjar á áhafnir flugmóðurskipa

Franska flugmóðurskipið Charles de Gaulle í sóttkví.
Franska flugmóðurskipið Charles de Gaulle í sóttkví.

Þriðjungur skipverja um borð í franska flugmóðurskipinu Charles de Gaulle – 668 af nærri 2.000 – eru smitaðir af COVID-19 segir í frétt BBC fimmtudaginn 16. apríl. Þá eru áhafnir fylgdarskips og flugmenn einnig í sóttkví.

Skipinu var siglt til Toulon í Frakklandi fyrr en ætlað var af æfingum á Atlantshafi. Tuttugu skipverjar eru í sjúkrahúsi, einn í gjörgæslu.

Á vegum flotans er nú rannsakað hvað olli því að svo margir í áhöfn skipsins urðu veikir. Skipið kom til hafnar í fyrri viku 10 dögum fyrr en ætlað hafði verið þegar nokkrir skipverja höfðu sýnt einkenni veikinnar.

Fyrr í apríl var staðfest að tæplega 600 skipverjar um borð í bandaríska flugmóðurskipinu USS Theodore Roosevelt hefðu sýkst af COVID-19. Skipið er annað tveggja bandarískra flugmóðurskipa við störf á vesturhluta Kyrrahafs. Einn úr áhöfn skipsins dó úr COVID-19 á eyjunni Guam eftir að skipinu hafði verið siglt þangað með 4.800 manna áhöfn.

Brett Crozier, skipherra flugmóðurskipsins, var rekinn úr bandaríska flotanum eftir að neyðarbréf sem hann skrifaði vegna faraldursins um borð lak til bandarískra fjölmiðla. Almenn reiði braust út vegna brottrekstursins og fór svo að settur flotamálaráðherra, Thomas Modly, neyddist til að segja af sér eftir að hafa flutt misheppnað ávarp yfir áhöfn skipsins. Nú berast fréttir um að reynt sé að finna leið til að Brett Crozier geti að nýju fengið stöðu í bandaríska flotanum.

Hollenski kafbáturinn MS Dolfijn neyddist til að snúa til heimahafnar tveimur vikum fyrr en ætlað var vegna COVID-19-smits um borð. Átta af 58 skipverjum reyndust smitaðir og er áhöfnin nú í sóttkví.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …