Home / Fréttir / COVID-19: Gagnrýnendur kínverskra stjórnvalda hverfa sporlaust

COVID-19: Gagnrýnendur kínverskra stjórnvalda hverfa sporlaust

Frá fjölda-sjúkrahúsi sem reist var vegna veirunnar í Wuhan í Kína. Nú er líf að færast þar í fyrra horf.,
Frá fjölda-sjúkrahúsi sem reist var vegna veirunnar í Wuhan í Kína. Nú er líf að færast þar í fyrra horf.,

Kínverski blaðamaðurinn Chen Quishi hvarf sporlaust í febrúar eftir að hafa dögum saman sagt fréttir af útbreiðslu COVID-19 í milljónaborginni Wuhan, upphafsborg mannskæða heimsfaraldursins. Quishi sendi myndskeið frá borginni eftir að henni var lokað þótt hann vissi að það væri honum sjálfum hættulegt.

„Ég er hræddur. Ég hef veiruna fyrir framan mig og kínversk yfirvöld að baki mér. Ég ætla samt að sýna kjark. Á meðan ég lifi og er í borginni held ég áfram að segja fréttir. Ég er ekki hræddur við að deyja. Hvers vegna ætti ég að óttast þig, kommúnistaflokkur?“ sagði hann á myndskeiði sem birtist 30. janúar.

Það leið ekki langur tími frá því að þetta myndskeið birtist þar til hann hvarf eins og margir aðrir Kínverjar sem hver á sinn hátt fundu að því hvernig tekið var á faraldrinum í Kína.

Allir eiga þessir einstaklingar það sameiginlegt að vikum saman hefur ekkert til þeirra spurst. Þriðjudaginn 7. apríl bárust þó tíðindi af þeim manni sem er hæstsettur af horfna fólkinu.

Þar er um að ræða Ren Zhiqiang, félaga í kommúnistaflokknum, sem áður var kunnur álitsgjafi og auðugur áhrifamaður. Þegar daglega bárust fréttir um fjölgun þeirra sem dóu í Kína leyfði hann sér óbeint að kalla forseta Kína „trúð“ vegna þess hvernig hann hélt á málum.

Við svo búið hvarf Ren Zhiqiang í mars og heyrðist ekkert af honum fyrr en allt í einu að kvöldi þriðjudags 7. apríl þegar nafn hans birtist í stuttri tilkynningu frá kommúnistaflokknum.

Stuttaralega tilkynnti agaskrifstofa flokksins í Peking að Zhiqiang sætti „rannsókn“ og eftirliti af hálfu flokksstofnunar sem er þekkt fyrir að standa fyrir spillingarrannsóknum.

Bandarískir þingmenn hafa eins og aðrir áhuga á því hvernig kínversk stjórnvöld taka á COVID-19-faraldrinum og þar með einnig á örlögum þeirra sem gagnrýna það sem gert er.

Michael McCaul, leiðtogi repúblíkana í utanríkismálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði þegar tilkynningin birtist um Ren Zhiqiang:

„Vegna stjórnarhátta kínverska kommúnistaflokksins óttast þeir sem gagnrýna ríkisstjórnina að þeir verði handteknir eða hverfi eins og læknarnir sem vöruðu fyrstir við kórónaveirunni. Ren Zhiqiang sætir rannsókn vegna þess eins að hann gagnrýndi yfirvöld fyrir framgöngu þeirra gegn veirunni. Þessa kúgun verður tafarlaust að stöðva.“

Þá hefur annar repúblíkani, Jim Banks, reynt að fá bandaríska utanríkisráðuneytið til að beina athygli að Chen Quishi og tveimur öðrum Kínverjum, Fang Bin og Li Zehua, sem hurfu einnig eftir að hafa farið gagnrýnisorðum um verklag vegna kórónaveirunnar í Kína. Banks segir að kínversk yfirvöld hafi fangelsað mennina þrjá ef ekki gengið enn lengra gegn þeim.

 

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …