Home / Fréttir / COVID-19: Bólusetning Breta að hefjast

COVID-19: Bólusetning Breta að hefjast

55793472_303

Bresk yfirvöld verða fyrst til þess á Vesturlöndum að bjóða almenna bólusetningu gegn COVID-19 veirunni eftir að notkun Pfizer-BioNTechs COVID-19-bóluefni var samþykkt af breska lyfjaeftirlitinu miðvikudaginn 2. desember. Bólusetning hefst í næstu viku í Bretlandi. Í fyrstu fá Bretar 800.000 skammta frá Pfizer. Við flutning efnisins þarf að tryggja 70° kælingu.

Í opinberri tilkynningu sagði:

„Ríkisstjórnin hefur í dag fallist á tillögu frá óháða Medicines and Healthcare products Regulatory Agency (MHRA) [lyfjaeftirliti] um að samþykkja notkun á Pfizer-BioNTechs COVID-19-bóluefni. Unnt verður að nálgast bóluefnið frá og með næstu viku um allt Bretland.“

Þar með verða Bretar meðal fyrstu þjóða heims til að fá almenna bólusetningu gegn COVID-19-farsóttinni.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði þetta gerði þjóðinni kleift að „endurheimta líf“ sitt.

Í Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins er einnig unnið að því að meta bóluefnið frá Pfizer auk svipaðs efnis frá keppinautnum Moderna. Breska lyfjaeftirlitið kannar einnig bóluefni frá AstraZeneca og Oxford-háskóla.

Í breskum fjölmiðlum segir að stjórnendum sjúkrahúsa á Englandi hafi verið sagt að búa sig undir að bólusetningar á heilbrigðisstarfsmönnum hefjist snemma í næstu viku.

Pfizer segir að nú þegar hefjist flutningur á takmörkuðu magni bóluefnis til Bretlands. Þá búi fyrirtækið sig undir að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna gefi grænt ljós á bóluefni fyrirtækisins í næstu viku.

Í fyrstu verður beitt skömmtun við dreifingu bóluefnisins en stefnt er að almennri dreifingu þess þegar framleiðslan eykst í byrjun næsta árs.

Albert Bourla, forstjóri Pfizer, sagði ákvörðun Breta „sögulega“ . Hann hrósaði MHRA í Bretlandi fyrir að leggja mat á bóluefnið á skömmum tíma og þannig flýta fyrir að unnt yrði að auka vernd íbúa Bretlands.

Fundið hefur verið að því hve fljótt MHRA komst að niðurstöðu sinni en June Raine, forstjóri MHRA, segir að enginn þurfi að óttast um að innan stofnunar hennar hefðu vísindamenn stytt sér leið við eftirlitið. Engin áhætta hefði verið tekin heldur almenns öryggis gætt að fullu. Sérfræðingar eftirlitsins hafi lagt nótt við dag við rannsóknir sínar.

June Raine svaraði gagnrýni frá Evrópsku lyfjastofnuninni (European Medicines Agency), sem samþykkir bóluefni fyrir ESB. Af hálfu ESB-stofnunarinnar er því haldið fram að með því að taka sér lengri tíma sé unnt að afla meiri vitneskju en gert hafi verið með hraðafgreiðslu Breta.

ESB-þingmaðurinn Peter Liese, úr CDU-flokki Angelu Merkel, segir að um flókna athugun sé að ræða og hann mæli ekki með því að ESB-stofnunin fari að dæmi Breta.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …