Home / Fréttir / Corbyn krefst aðgerða gegn yfirmanni breska hersins

Corbyn krefst aðgerða gegn yfirmanni breska hersins

Jeremy Corbyn
Jeremy Corbyn

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur sakað yfirmann herafla Bretlands um að taka pólitíska afstöðu í ágreiningi um endurnýjun kjarnorkuherafla Breta,

Sir Nicholas Houghton hershöfðingi sagði sunnudaginn 8. nóvember, á minningardegi fallinna breskra hermanna, að hann hefði „áhyggjur“ vegna þeirrar heitstreningar Corbyns að hann mundi aldrei „þrýsta á kjarnorkuhnappinn“, það er heimila notkun kjarnorkuvopna.

Í tilefni af þessu sendi Corbyn frá sér yfirlýsingu um að honum stæði alls ekki á sama vegna yfirlýsingar hershöfðingjans og hann hvatti Michael Fallon varnarmálaráðherra til að „grípa til aðgerða“. Þá sagði í yfirlýsingunni:

„Ástæða er til að hafa af því alvarlegar áhyggjur að yfirmaður herráðsins hefur í dag blandað sér beint í mál sem deilt er um á stjórnmálavettvangi.“

Átökin snúast um hvort endurnýja eigi Trident-kjarnorkuvopnabúnað Breta. „Í lýðræðisríki skiptir höfuðmáli að heraflinn gæti ætíð hlutleysis gagnvart stjórnmálum,“ sagði Corbyn.

Á minningardeginum leggja drottningin og forystumenn stjórnmálaflokkanna krans við minningarsúluna Cenopath í London. Corbyn hefur sætt harðri gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrir að hneigja sig ekki nógu djúpt eftir að hafa lagt krans sinn við súluna.

Sir Nicholas Houghton sagði við BBC að það mundi veikja „fælingarmátt“ breska hersins „alvarlega“ ef forsætisráðherrann hafnaði beitingu kjarnorkuvopna. Hershöfðinginn sagði:

„Ég hefði af því áhyggjur ef þessi hugsun mundi ráða á valdastóli. Þegar sagt er að maður muni aldrei nýta fælingarmáttinn segi ég, maður nýtir fælingarmáttinn hverja sekúndu sérhverrar mínútu sérhvers dags, tilgangur fælingarmáttarins er að ekki þurfi að nýta hann af því að manni tekst að beita fælingunni. Flestir stjórnmálamenn sem ég þekki skilja þetta.“

Í yfirlýsingu Corbyns sagði að Sir Nicholas Houghton hefði brotið gegn „grunnstoð stjórnarskrárinnar“ með því að taka afstöðu til pólitísks deilumáls. Herinn ætti að standa utan flokkadeilna.

Frá því að Corbyn, sem er gamalreyndur hernaðarandstæðingur, varð leiðtogi Verkamannaflokksins hefur hann sætt gagnrýni fyrir framgöngu sína við ýmis hátíðleg tækifæri. Hann söng til dæmis ekki þjóðsönginn við minningarmessu vegna orrustunnar um Bretland um miðjan september. Eftir það tilkynnti skrifstofa Verkamannaflokksins að framvegis mundi Corbyn syngja þjóðsönginn við hátíðleg tækifæri – hann gerði það við minngarsúluna hinn 8. nóvember.

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …