Home / Fréttir / Comey um Trump: „mafíu-foringi“ – Trump um Comey „slordóni“

Comey um Trump: „mafíu-foringi“ – Trump um Comey „slordóni“

Donald Trump og James Comey.
Donald Trump og James Comey.

James Comey, fyrrverandi forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, lýsir Donald Trump sem einskonar glæpaforingja sem sé „ótjóðraður við sannleikann“. Þetta segir Comey í nýrri bók sem birtist opinberlega þriðjudaginn 17. apríl en var afhent bandarískum fjölmiðlum fimmtudaginn 12. apríl. Hann lýsir stjórnarháttum Trumps með orðinu „skógareldur“.

Í bókinni notar James Comey orðin „mafia boss“ – mafíuforingi – þegar hann lýsir Trump og segir hann lifa og hrærast í „verndarhjúpi hliðar veruleika“. Á Twitter segir Trump að Comey sé „slordóni“ og lygari.

„Forysta hans snýst um gagnvirkni, sjálfsupphafningu og persónulega hollustu,“ segir Comey um Trump í bók sinni A Higher Loyalty: Truth, Lies and Leadership – Æðri hollusta: Sannleikur, lygar og forysta.

Trump rak Comey úr embætti í maí 2017 þegar hann rannsakaði hugsanleg tengsl milli kosningastjórnar Trumps og Rússa. Skömmu síðar var Robert Mueller skipaður sérstakur saksóknari til að rannsaka hugsanleg afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Hluti rannsóknarinnar hefur síðan snúist um hvort forsetinn hafi lagt stein í götu réttvísarinnar með því að reka Comey.

Í The Washington Post hafa verið birtir kaflar úr bókinni sem koma sér illa fyrir Trump forseta. Þar á meðal:

„Þegar ég hitti Trump komu upp í hugann minningar frá fyrri störfum mínum sem saksóknari gegn mafíunni.“

„Í kringum hann sátu þögulir samþykkjendur. Bossinn hafði alla þræði í hendi sér. Hollustueiðar. Heimsmyndin: við-á-móti-þeim. Logið um alla hluti, stóra og smáa, einskonar hollustudulmál sem skipaði samtökunum ofar siðferði og ofar sannleika.“

„Sem forseti ógnar Donald Trump mörgu sem telst gott meðal þjóðarinnar.“

„Forsetinn en ósiðlegur, ótjóðraður við sannleikann og gildi stjórnskipulagsins.“

„Þeir glata getu til að skilja á milli þess sem er satt og hins sem er ósatt. Þeir raða í kringum sig öðrum lygurum. Sporslur og aðgengi fá þeir sem eru tilbúnir að ljúga og sætta sig við lygar. Við þetta skapast „kúltúr“ sem setur svip sinn á allt daglegt líf.“

Comey segir að Trump þekki ekki muninn á réttu og röngu og hann hafi reynt að rugla skilin milli löggæslu og stjórnmála með því að reyna sjálfur að fá hann til að hætta við rannsókn á kosninga-afskiptum Rússa.

Í bókinni segir að Trump sé haldinn ofurþörf fyrir að kveða niður rangan orðróm sem hann segi að geti sært konu sína, Melaniu – sérstaklega myndskeið sem sagt er að sýni að Trump hafi horft á rússneskar vændiskonur pissa hver á aðra í sömu hótelsvítu í Moskvu og Barack Obama forseti og kona hans Michelle gistu áður „til þess að óhreinka rúmið,“ segir Comey. Frásögnin er sögð vera í skýrslu sem Christopher Steele, fyrrv. foringi hjá bresku MI6 njósnastofnuninni, tók saman.

Forsetinn hafi að minnsta kosti rætt þetta fjórum sinnum við Comey. Trump hafi afdráttarlaust hafnað öllum ásökunum um kvennafar og spurt hvort hann liti út eins og gaur sem þyrfti þjónustu vændiskvenna. Vegna þess sem átti að hafa gerst í Moskvu sagðist hann haldinn ofsahræðslu við sýkla og þess vegna hefði ekkert af þessu tagi getað gerst í návist sinni.

Comey segir að Trump hafi verið minni en hann vænti með „of langt“ slifsi og „ljósa bauga“ undir augunum sem líklega megi rekja til sólbaðs-gleraugna. Comey sjálfur erum 2 metrar á hæð.

Comey sætti gagnrýni fyrir að opna að nýju rannsókn á tölvubréfum forsetaframbjóðandans Hillary Clinton á viðkvæmum tímapunkti tæpum tveimur vikum fyrir kjördag árið 2016 og binda síðan enda á hana tveimur dögum fyrir kjördag. Í bókinni fullyrðir hann að þetta hafi hann gert vegna þeirrar skoðunar sinnar að hún mundi vinna í kosningunum. Hefði málinu ekki verið lokið fyrir kjördag  kynnu einhverjir að telja hana ekki lögmætan forseta.

Viðbrögðin úr Hvíta húsinu létu ekki á sér standa. Að morgni föstudags 13. apríl setti Donald Trump á Twitter:

„Sannað er að James Comey LEKUR & LÝGUR. Raunverulega öllum í Washington fannst að hann ætti að reka fyrir hræðileg störf sín – þar til að hann var í raun rekinn. Hann lak TRÚNAÐARupplýsingum og ætti þess vegna að sæta ákæru. EIÐSVARINN laug hann að þinginu. Hann er veiklyndur og ósannsögull slordóni sem var, eins og komið hefur í ljós, hræðilegur forstjóri FBI. Meðferð hans á máli óheiðarlegu Hillary Clinton og allt í kringum það verður síðar talið meðal verstu „klúðurmála“ sögunnar. Það var mikill heiður fyrir mig að reka James Comey!“

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …