Home / Fréttir / CNN: Trump vill að Bandaríkjaþing veiti fé til að reisa Mexíkó-múrinn – kosningaloforð að engu orðið

CNN: Trump vill að Bandaríkjaþing veiti fé til að reisa Mexíkó-múrinn – kosningaloforð að engu orðið

Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.

 

Fullyrt er af CNN-sjónvarpsstöðinni að Donald Trump búi sig undir að svíkja kosningaloforðið sem vakti hvað mesta athygli í kosningabaráttu hans: að láta Mexíkana borga fyrir múrinn sem á að koma í veg fyrir að fólk komist ólöglega frá Mexíkó inn í Bandaríkin.

Í frétt CNN kemur fram að þeir sem undirbúi valdatöku Trumps 20. janúar hafi gefið þingmönnum repúblíkana til kynna að Trump vilji að staðið sé undir kostnaði við gerð múrsins með opinberum bandarískum fjárveitingum.

„Með þessu yrði eitt af lykiloforðum í kosningabaráttunni haft að engu þar sem Trump sagði hvað eftir annað að hann mundi neyða Mexíkana til að borga fyrir gerð múrsins á landamærunum,“ segir CNN.

Ráðgjafar Trumps segja að í lögum frá 2006 í forsetatíð George W. Bush sé að finna heimild til að reisa þennan landamæramúr. Verkefnið hefur þó aldrei verið fjármagnað og Barack Obama hefur undanfarin átta ár látið málið liggja.

„Ekkert var gert í málinu í stjórnartíð Obama. Með því að fjármagna framkvæmd verkefnisins sem samþykkt var fyrir 10 árum getum við hafist handa við að uppfylla loforð Trumps um að gæta öryggis á landamærunum,“ sagði Luke Messer, fulltrúardeildarþingmaður repúblíkana við CNN.

Messer segir að það kosti mikið að efna kosningaloforðið en menn verði að forgangsraða.

CNN segir að repúblíkanar vænti þess að demókratar í báðum deildum þingsins, öldungadeildinni og fulltrúadeildinni, styðji þá við að finna fé til að fjármagna gerð múrsins.

Þeir minna á að bæði Hillary Clinton og Barack Obama hafi sem öldungadeildarþingmenn árið 2006 stutt löggjöfina sem heimilaði að reistur skyldi steyptur múr milli Bandaríkjanna og Mexíkó.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …