
Bandaríski flugherinn kemur til loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins við Ísland mánudaginn 4. apríl. Flugsveitin kemur frá Air National Guard í Westfield, Massachusetts. Alls munu um 150 liðsmenn taka þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center). Flugsveitin kemur til landsins með fjórar F-15C orrustuþotur og KC-135 eldsneytisbirgðaflugvél, segir á vefsíðu landhelgisgæslunnar.
Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 5. – 7. apríl.
Verkefnið verður framkvæmt með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland. Ráðgert er að verkefninu ljúki fyrir lok apríl. Verkefnið er framkvæmt af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
CNN-sjónvarpsstöðin hafði frétt um för bandarísku flugsveitarinnar til Íslands sem aðalfrétt á vefsíðu sinni að morgni sunnudags 3. apríl. Þar sagði:
„Flugherinn tilkynnti á föstudaginn að sendar yrðu 12 F-15 Eagles og um 350 flughermenn frá Bandaríkjunum til Íslands og Hollands til að sýna vilja Bandaríkjamanna til að tryggja „frelsi“ og „öryggi“ í Evrópu.
Um er að ræða vélar og menn frá 131. orrustusveit í þjóðvarðliði flughersins í Barnes-flugherstöðinni í Massachusetts og 194. orrustusveit í þjóðvarðliði flughersins í Fresno-flugherstöðinni í Kaliforníu. Vélarnar munu sinna loftrýmisgæslu á vegum NATO á Íslandi og stunda æfingar í Hollandi.
Þessar F-15 vélar eru ekki einu bandarísku orrustuvélarnar sem sendar eru til Evrópu í því skyni að fæla Rússa frá frekari yfirgangi á svæðinu.
Í febrúar sagði Bandaríkjastjórn að hún mundi senda sex F-15 þotur til Finnlands til þátttöku í æfingunni Operation Atlantic Resolve sem Bandaríkjamenn höfðu frumkvæði að árið 2014 til að skapa öryggiskennd meðal bandamanna sinna innan NATO eftir að Rússar beittu hervaldi í Úkraínu.
Þótt Íslendingar haldi úti lítilli landhelgisgæslu eru Íslendingar eina þjóðin í NATO án eigin hers.“