
Bandaríska leyniþjónustan CIA sendi fyrir nokkrum vikum frá sér viðvörun um að hugsanlega yrði ráðist á Nord Stream gasleiðslurnar á botni Eystrasalts. Frá þessu var skýrt eftir að þrjár öflugar sprengjur opnuðu leiðslurnar í hafinu fyrir austan Borgundarhólm eins og skýrt var frá í fréttum þriðjudaginn 27. september.
CIA sendi „stategíska viðvörun“ til evrópskra bandamanna sinna, þar á meðal Þjóðverja, í sumar um að leiðslurnar væru í hættu. Þýska vikuritið Der Spiegel greindi frá þessu að kvöldi 27. september og vitnaði í heimildarmenn sem neituðu að tilgreina Rússa sem hugsanlega gerendur. The New York Times segir að hvorki hafi verið getið um tíma- né staðsetningu í viðvöruninni.
Stjórnmálamenn og sérfræðingar segja allt benda til að Rússar standi að baki skemmdarverkinu á leiðslunum. Í The Washington Post er haft eftir evrópskum embættismönnum að „enginn telji þetta annað en rússneskt skemmdarverk“, það skorti hins vegar haldfastar sannanir til að unnt sé að skella skuldinni á Kremlverja.
Rússar ráða yfir getu til að gera árás af þessu tagi. Þeir eiga stærsta flota njósna-kafbáta í heimi og hafa árum saman unnið að því að fullkomna þá. Bent er á að með kafbáti af Belgorod-gerð – torséðum kjarnorkuknúnum kafbáti – megi vinna skemmdarverk á neðansjávarstrengjum og þá megi einnig nota þá til að valda tjóni á leiðslum. Um þetta eru sérfræðingar og greinendur sammála.
Sprengingarnar á leiðslunum urðu á um 70 m dýpi. Þar geta kafarar athafnað sig. Fjarlægðin frá rússnesku hólmlendunni Kaliningrad um Eystrasalt til Borgundarhólms er 363 km, aðeins styttri en frá Reykjavík að Jökulsárlóni (377 km). Rússar hafa lagt sig fram um að þróa neðansjávar-dróna sem nota má til að sprengja gasleiðslur.
Sama dag og sagt var frá skemmdarverkunum var gasleiðslan Baltic Pipe opnuð frá Noregi til Póllands við hátíðlega athöfn. Haft er eftir ónafngreindum evrópskum embættismanni að Rússar hafi hugsanlega viljað minna þá sem tóku þátt í athöfninni á að leiðsluna mætti hæglega eyðileggja.
Norðmenn leggja Evrópuþjóða mest gas af mörkum. Yfirvöld þar hafa undanfarna daga greint frá ferðum óþekktra dróna í nágrenni við borturna. Þau gripu til sérstakra öryggisráðstafana á þessum svæðum þriðjudaginn 27. september.
Undanfarið hefur gasverð lækkað í Evrópu eftir að hafa verið í hæstu hæðum fyrri hluta ársins. Vegna skemmdarverkanna hækkaði það um 19% síðdegis 27. júní. Er ekki talið úr vegi að hækkunin falli að markmiðum skemmdarverkamannanna.
Loks ýtir það undir þá skoðun að Rússar hafi verið þarna að verki að Vladimir Pútin Rússlandsforseti gerir nú úrslitatilraun til að festa sig í sessi í Úkraínu með hótunum í garð Vesturlanda. Nú verða úrslitin kynnt í gervi-þjóðaratkvæðagreiðslunni í þeim héruðum Úkraínu sem Pútin vill innlima í Rússland. Talið er að þau sýni að minnsta kosti 90% stuðning við Pútin og stefnu hans. Enginn utan fylgismanna Pútins telur atkvæðagreiðsluna hins vegar marktæka.
Þá hafa Kremlverjar ekki legið á þeirri skoðun undanfarið að hver sem sætti sig ekki við aðgerðir þeirra í Úkraínu kalli yfir sig hættu á kjarnorkuárás. Dmitríj Medvedev, fyrrv. forseti og forsætisráðherra Rússlands, náinn samstarfsmaður Pútins og varaformaður öryggisráðs Rússlands, sagði þriðjudaginn 27. september að Rússar hefðu „rétt“ til að beita kjarnavopnum væri öryggi þeirra ógnað.
Ráðamenn í Moskvu neita að sjálfsögðu allri aðild að skemmdarverkunum á gasleiðslunum. Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, segist vera „mjög áhyggjufullur“ vegna gaslekanna sem kynnu að ógna allri miðlun á orku í Evrópu.
Fyrirtækið sem rekur gasleiðslunar segist ekki geta sagt nákvæmlega hve langan tíma taki að gera við þær. Gasið sem Rússar flytja enn til Evrópu fer nú um leiðslur í Úkraínu. Rússar hafa í hótunum um að loka leiðslunum vegna deilna við Úkraínumenn um gjaldtöku þeirra vegna gasflutninganna. Þá er ein leiðsla frá Rússlandi enn og liggur hún til Tyrklands.