
Þær fréttir bárust frá rússnesku forsetaskrifstofunni í Kreml sunnudaginn 17. desember að bandaríska leyniþjónustan CIA hefði miðlað upplýsingum sem komu í veg fyrir að hryðjuverkasamtökin Daesh (Ríki íslams) gætu unnið illvirki með sprengjum í St. Pétursborg.
Af þessu tilefni hringdi Vladimír Pútín Rússlandsforseti í Donald Trump Bandaríkjaforseta til að þakka honum fyrir upplýsingarnar frá CIA. Staðfest er í Hvíta húsinu í Washington að forsetarnir hafi rætt saman í síma.
Rússar segja að CIA-upplýsingarnar hafi dugað til að öryggislögregla þeirra, FBS, fann sjö grunaða illvirkja í fyrri viku, hafi þeir ætlað að gera sjálfsmorðsárásir laugardaginn 16. desember á Kazan-dómkirkjuna sem er 200 ára gömul og önnur skotmörk í annarri stærstu borg Rússlands. Þrír til viðbótar voru handteknir sunnudaginn 17. desember, grunaðir um aðild að hryðjuverkunum.
Rússnesk yfirvöld segjast hafa lagt hönd á mikið magn sprengiefnis sem notað sé til heimaframleiðslu, sjálfvirka riffla. skotfæri og áróður öfgamanna.
Þá er sagt að þeir sem teknir voru fastir hafi notað skilaboða-smáritið Telegram til að hafa samband við foringja Daesh utan Rússlandas. Rússneskur dómari sektaði Telegram um 14.000 dollara í október fyrir að neita að upplýsa lögregluna um atriði sem tengdust árás í St. Pétursborg í apríl 2017 á jarðlest, þá féllu 16 manns í valinn og rúmlega 50 særðust.
Talsmaður Pútíns sagði að forsetinn hefði beðið Trump að koma á framfæri þakklæti til CIA og að Rússar mundu miðla upplýsingum sem þeir kynnu að afla um hugsanleg hryðjuverk í Bandaríkjunum.
Þetta var annað símtal Pútíns og Trumps á fjórum dögum.