Home / Fréttir / Christian Science Monitor fjallar um aukinn áhuga Bandaríkjamanna á Keflavíkurstöðinni

Christian Science Monitor fjallar um aukinn áhuga Bandaríkjamanna á Keflavíkurstöðinni

Frá Keflavíkurstöðinni.
Frá Keflavíkurstöðinni.

„Þegar Bandaríkjamenn lokuðu flotastöðinni í Keflavík árið 2006 voru sérfræðingar beggja landa í hermálum orðlausir af undrun.  Þótt rússneska ógnin – hvatinn að stöðinni árið 1951 – virtist fjarlæg eftir að kalda stríðinu lauk var enn litið á Ísland sem einstakan stað fyrir eftirlitsstöð. Bandaríkjamenn meta nú strategískt gildi landsins að nýju,“ segir í upphafi greinar eftir Kristinu Lindborg, fréttaritara bandaríska blaðsins The Christian Science Monitor sem dagsett er 27. mars 2016 og skrifuð í Reykjavík. Fyrirsögn greinarinnar er: Hvers vegna vill Pentagon fága upp stöð á Íslandi?

Greinin í blaðinu er á þennan veg:

„Í síðasta mánuði kynnti Pentagon [bandaríska varnarmálaráðuneytið] tillögu sína um 21,4 milljón dollara fjárveitingu á árinu 2017 til að endurnýja flugskýli og mannvirki í stöðinni. Gangi framkvæmdirnar eftir verður unnt að hafa P-8 Poseidon eftirlitsflugvélar þar. P-8 kafbátaleitarvélarnar um nýtast við eftirlit á N-Atlantshafi – og koma til mótvægis við vaxandi hernaðarumsvif Rússa á svæðinu.

„Að hafa aðstöðu til eftirlist og hlustunar á Íslandi hefur gífurlega mikið strategískt gildi og skapar aðstöðu fyrir Bandaríkjamenn og bandamennina í NATO til að fylgjast með ferðum Rússa, einkum á norðurslóðum,“ segir Carl Hvenmark Nilsson, gistifræðimaður við Center for Strategic and International Studies í Washington.

Nilsson segir að utanríkisstefna Rússa sem mótuð sé af hefndarhyggju eins og birtist í Úkraínu skýri að nokkru aukin hernaðarumsvif þeirra á Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafi. Rússar hafi á undanförnum þremur árum efnt til þriggja stórra heræfinga á svæðinu. Þar á meðal sé strategísk aðgerðaæfing með þátttöku meira en 100.000 hermanna á árinu 2014, og skyndi herútboð í mars í fyrra með þátttöku 45.000 hermanna, 15 kafbáta og 41 herskips „sem sýndu sig albúin til bardaga,“ segir Nilsson.

Legu Íslands hefur verið líkti við að flugmóðurskip sé í miðju Atlantshafi. Bandaríski sjóliðsforinginn Sean Liedman, herfræðingur við  Council on Foreign Relations [í Bandaríkjunum] segir að hnattstaða landsins miðja vegu milli Bandaríkjanna og Evrópu valdi því að landið sé ákjósanlegt til fyrirstöðu.

Raunar hefur athygli herstjórnenda og skipuleggjenda mjög beinst að Íslandi síðan í síðari heimsstyrjöldinni þegar bandamenn höfðu þar aðstöðu og nýttu hana til að fylgjast með þýskum kafbátum í hafinu frá Grænlandi til Bretlands.

Aðilar að NATO, þar á meðal Bandaríkjamenn gerðu tvíhliða samning við Íslendinga árið 1951 um að halda úti herstöðinni. Hún gegndi lykilhlutverki til eftirlits með sovéskum kafbátum sem auðveldara var að fylgjast með í þröngum neðansjávar afkimum undan ströndum Íslands.

Þegar stöðin var stærst á hápunkti kalda stríðsins voru um 5.000 bandarískir sjóliðar og flughermenn með fjölskyldum sínum í Keflavík.

Árið 2006 barst tilkynning frá Pentagon um að loka ætti stöðinni þar sem athyglin beindist að Írak og Afganistan. Á þeim tíma virtust litlar líkur á að Rússar sæktu fram á Norður-Atlantshafi.

Tilkynningin kom sem reiðarslag fyrir Íslendinga og hernaðarsérfræðinga. Íslenskur embættismaður sagði skyndilega brottförina hafa skilið eftir sig „sár og ör“.  Margir töldu hana einkennast af ofríki. Þrátt fyrir þetta varð Ísland – þar er að finna landhelgisgæslu en ekki her – ekki varnarlaust. Í varnarsamningnum frá 1951 er mælt fyrir um skyldu Bandaríkjamanna og NATO-þjóðanna til að verja það.

Nú á tímum hafa bandarískir sérfræðingar í varnarmálum einnig áhyggjur af því að aukin hernaðarumsvif Rússa á Norður-Atlantshafi geti ógnað öryggi neðansjávar fjarskiptakapla. Gerry Hendrix, fyrrv. flotaforingi, sérfræðingur í varnarmálum hjá Center for a New American Security í Washington segir að Bandaríkjamenn hefðu aldrei átt að minnka viðveru sína á Íslandi. Hann telur að inngrip rússneskra kafbáta gætu skaðað lönd beggja vegna Atlantshafs.

Þá ber að líta til viðskipta, siglingaöryggis og umhverfismála þegar hugað er að landfræðilegum og stjórnmálalegum hagsmunum Íslands. Ísland er í NATO, ríkisstjórn landsins stendur að þvingunaraðgerðum Vesturlanda gagnvart Rússum sem eru á hinn bóginn mikilvægir kaupendur íslenskra sjávarafurða, einnar helstu útflutningsvöru þjóðarinnar.

John Higginbotham, sérfræðingur við Centre for International Governance Innovation í Kanada, segir að áform Pentagon um að endurbæta – ekki opna að fullu – Keflavíkurstöðina gefi til kynna að Bandaríkjamenn vilji „augljóslega ekki vera ögrandi en þetta auki getu þeirra“.

Fyrr í þessum mánuði [þetta var 9. febrúar 2016] sendi íslenska utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem áréttað er að ekki fari fram neinar viðræður milli Bandaríkjamanna og Íslendinga um að bandarískir hermenn hafi fasta viðveru í Keflavík. Í tilkynningunni segir þó að það hafi átt sér „stað samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar“.

Nilsson segir að þeim fjármunum sé „mjög vel varið fyrir NATO og bandaríska flotann“ sem notaðir séu til að endurskapa viðveru á Íslandi.

„Í því felast einnig mjög skýr skilaboð til Kremlverja um að NATO mundi láta að sér kveða til að fæla Rússa frá frekari ásókn á alþjóðleg hafsvæði.“

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …