Home / Fréttir / Charles Krauthammer: Obama bregst bandamönnum sínum – ýtir undir Pútín

Charles Krauthammer: Obama bregst bandamönnum sínum – ýtir undir Pútín

Charles-Krauthammer

 

„Hinn 5. september 2014 fóru útsendarar rússneskra stjórnvalda inn í Eistland og rændu eistneskum öryggisverði. Í fyrri viku var hann dæmdur í 15 ára fangelsi í lokuðu réttarhaldi í Rússlandi.

Viðbrögðin? [Bandaríska] utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu. Framkvæmdastjóri NATO skrifaði á Twitter. Evrópusambandið sagði of snemmt að ræða hugsanlega aðgerð,“ þannig hefst pistill eftir bandaríska dálkahöfundinn Charles Krauthammer  í Washington Post föstudaginn 28. ágúst. Þar segir einnig:

„Tímasetning þessa ósvífna brots gegn yfirráðasvæði NATO – tveimur dögum eftir að Obama heimsótti Eistland til að staðfesta öryggisskuldbindingu Bandaríkjanna – er til marks um fyrirlitningu Vladimirs Pútíns á Bandaríkjaforseta. Hann veit að Obama aðhefst ekkert. Hvers vegna skyldi hann halda annað?

Pútín brýtur vopnasölubannið gegn Íran með því að selja þangað S-300 eldflaugar. Svar Obama felst í að afsaka hann, þetta sé tæknilega ekki ólöglegt auk þess að taka ofan fyrir þolinmæði Pútíns: „Satt að segja undrar mig að þetta hélt svona lengi.“

Á elleftu stundu króa Rússar Obama af í Íran-viðræðunum, þeir ganga í lið með Írönum og krefjast þess að fallið sé frá banni við sölu á venjulegum vopnum og langdrægum eldflaugum. Obama lætur gott heita.

Pútín ræðst inn í Úkraínu, innlimar Krím, brýtur tvo Minsk-vopnahléssamninga og þurrkar út landamæri Rússlands og Úkraínu. Svar Obama? Títiprjónsstungur með viðskiptabanni, innantómar hótanir og staðföst andstaða við að láta Úkraínustjórn í té varnarvopn, með þeim gæti hann reitt Pútín til reiði.

Í Austur-Evrópu veita menn þessu eftirtekt. Stjórn Litháens ákvað í febrúar að innleiða herskyldu að nýju, sem skiptir engu í stóra hernaðarlega samhenginu – Litháar gætu ekki stöðvað framrás hers Rússa í einn dag – en er mjög táknrænt. Ríkisstjórnir Austur-Evrópu hafa beðið NATO að hafa fastar herstöðvar í löndum sínum, þær yrðu kveikiþráður sem tryggði öflugt svar við hvers konar árás Rússa.

NATO hafnaði beiðninni. Þess í stað bauð Obama að efnt yrði til heræfinga í Eystrasaltslöndunum og Póllandi og dreifði til viðbótar 250 skriðdrekum og brynvörnum farartækjum á sjö bandalagsríki.

Vissulega er rétt að reiði Pútíns vegna þess að rússneska stórveldið hrundi á upptök sín áður en Obama kom til sögunnar. Að reiði breytist í hefndarstefnu – virka endurheimtarstefnu – ræðst af rétta tækifærinu. Það fékkst einmitt með stefnunni sem Obama hefur fylgt undanfarin sex og hálft ár – stefnu „endurræsingar“ gagnvart Rússum.

Rússum er ljóst frá því að síðari heimsstyrjöldinni lauk að Evrópubúar, hamingjusamir  í hvíldarstöðu hins hrörnandi manns, standa ekki vegi fyrir sókn þeirra í vestur heldur Bandaríkjamenn, ábyrgðarmenn vestræns öryggis. Barnaskapur og tvíræðni Obama hefur valdið óvissu um gildi þessarar ábyrgðar.

Óvissan hófst með talinu um endurræsingar-hnappinn sem stafaði af oflæti innan við tveimur mánuðum eftir innsetningu Obama í embætti. Sex mánuðum síðar birtist svo einhliða tilkynning Bandaríkjastjórnar um að hætt hefði verið við eldflaugavarnar-skjöldin sem Pólverjar og Tékkar höfðu samþykkt að risi á landi þeirra. Þetta var gert til að Pútín yrði ekki reiður.

Á árinu 2012 gerði Obama, enn grandalaus, gys að Mitt Romney sem sagði Rússa „án efa geopólitískan óvin okkar nr. 1“. Obama brást við einstaklega gáfulega: „Nú er kallað frá níunda áratugnum og óskað eftir að utanríkisstefna þess tíma verði innleidd að nýju.“ Honum þótti nóg um enda hefði „kalda stríðinu lokið fyrir 20 árum“.

Í ljós kom að kallað var frá árinu 2015. Ýmsir æðstu embættismenn Obama hafa rétt hlut Romneys. Í síðasta mánuði sagði maðurinn sem Obama hefur valið sem formann herráðs Bandaríkjanna: „Rússar eru meginógnin við þjóðaröryggi okkar.“ Fyrir tveimur vikum lýsti fráfarandi yfirmaður landhersins, Raymond Odierno, Rússum sem „hættulegustu“ hernaðarógn við okkur. Sjálfur varnarmálaráðherra Obama hefur bætt um betur og sagt: „Rússar ógna tilvist Bandaríkjanna.“ Í ljós kemur að kalda stríðinu er ekki heldur lokið. Pútín hefur einsett sér að blása lífi í það. Honum hefur verið gert það miklu auðveldara vegna sögulegra ranghugmynda Obama um áform Rússa – valdajafnvægið hefur raskast og bandamenn Bandaríkjanna finna það.

Þetta á ekki aðeins við Austur-Evrópubúa. Forseti Egyptalands, ríkis án tengsla við Rússa í 40 ár og helsta bandamanns okkar meðal araba í Mið-Austurlöndum, hefur farið í tvær heimsóknir til Moskvu á síðustu fjórum mánuðum.

Sádar eru eðlislægt á varðbergi gagnvart Rússum en nú í áfalli vegna stór-uppgjafar Obama í kjarnorkumálum gagnvart Írönum sem skapar þeim svæðisbundna yfirburði. Sádar leita einnig annarra úrræða. Á nýlegri efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg buðu Sádar Pútín til Riyadh og Rússar svöruðu með því að bjóða Salman konungi að heimsækja Tsar Valdimír í Moskvu.

Jafnvel Pakistanar, hefðbundnir bandamenn Kínverja og andstæðingar Rússa, hafa ákveðið að kaupa Mi-35 þyrlur frá Rússlandi. Rússar leggja nú jarðgasleiðslu milli Karachi og Lahore.

Á sama tíma og John Kerry bíður eftir væntanlegum Nóbel og Obama skipuleggur forseta-bókasafn sitt (tillaga mín: í Havana), ákveður Pútín hvernig hann geti best nýtt sér næstu 17 stórgróða-mánuði í boði Obama.

Heimurinn sér þetta. Obama sér það ekki.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …