Home / Fréttir / Charles Krauthammer: Kúvendingin mikla – í bili.

Charles Krauthammer: Kúvendingin mikla – í bili.

Charles Krauthammer.
Charles Krauthammer.

Charles Krauthammer er meðal virtustu álitsgjafa í bandarískum fjölmiðlum og fastur dálkahöfundur The Washington Post. Hér er meginefni dálks sem hann skrifaði um kúvendingu Donalds Trumps í utanríkismálum með árásinni á Sýrland. Eftir að risasprengjunni var kastað á greni hryðjuverkamanna í Afganistan sagði hann að hún væri skilaboð til ráðamanna í Norður-Kóreu. Hér birtist meginefni greinar Krauthammers frá fimmtudeginum 13. apríl:

Heimurinn stendur á öndinni vegna snöggrar kúvendingar Trumps forseta í utanríkismálum. Hann sótti umboð sitt í krafti slagorðsins: Bandaríkin fyrst. Hann hafnar því að gegna hlutverki lögreglumanns heimsins. Hann upprætir útlend sníkjudýr (umorðun mín) sem sjúga í sig dýrmæta líkamsvessa okkar – og þetta eru bandamenn! Trump sagði 4. apríl: „Ég sækist ekki eftir að verða forseti heimsins. Ég er forseti Bandaríkjanna. Og frá og með þessari stundu verða Bandaríkin fyrst.“

Viku fyrr sögðu bæði utanríkisráðherra hans og sendiherrann hjá Sameinuðu þjóðunum að stjórn Bashars al-Assads væri staðreynd og það væri ekki lengur forgangsmál Bandaríkjastjórnar að breyta henni.

Svo gerðist það í síðustu viku að Assad varpaði efnavopnum á svæði undir stjórn uppreisnarmanna og Trump  skýtur 59 Tomahawk-stýriflaugum á Sýrland.

Að nokkru var um tilfinningaleg viðbrögð að ræða vegna mynda af börnum sem  dóu af sarin-eitrun. Og að hluta var tækifærið nýtt til að endurvekja rauðu línuna gegn efnavopnum sem dregin var án eftirfylgni af Barack Obama.

Hver sem ástæðan var, siðferðileg eða hernaðarleg, lét Trump til skarar skríða. Og með því endurræsti hann í raun utanríkisstefnu sína í heild.

Vissulega mun árásin ein og sér ekki valda skýrum straumhvörfum í borgarastríðinu í Sýrlandi. Assad og samherjar hans frá Íran, Rússlandi og Hezbollah hafa enn yfirhöndina – en þeir hafa ekki lengur frjálsar hendur. Að loknu sex ára bandarísku aðgerðaleysi hafa nú verið dregin mörk og Bandaríkjamenn munu sjá til þess að þau verði virt.

Árásin markaði ekki heldur upphaf stjórnarskipta í Sýrlandi. Í henni fólst hins vegar árétting um að Bandaríkjamenn láta sig varða hvernig stríðinu er háttað og hver verður niðurstaða þess. Afskiptaleysi Bandaríkjamanna er lokið. Gætið ykkar.

Auk þess fólust skýr skilaboð í því til umheimsins hve skjót viðbrögðin voru. Obama er farinn. Ekki er lengur um flóknar réttarrannsóknir að ræða. Forsetinn veltir ekki lengur kvíðafullur fyrir sér siðferðilegri úlfakreppu veraldar í vanda. Það tók Obama 10 mánuði að ákveða hvað gera skyldi í Afganistan. Það tók Trump 63 klukkustundir að sjá til þess að Assad fengi að gjalda fyrir tvöfeldni sína vegna efnavopna.

Bandaríkjamenn hafa sýnt getu sína til að grípa til skjótra, afdrifaríkra ákvarðana. Og við skulum minnast þess að þetta er gert til varnar óhlutbundinni alþjóðlegri reglu – með rökum sem vega á dramatískan hátt þyngra en hömlurnar sem felast í slagorðinu Bandaríkin fyrst.

Í innsetningarræðu sinni hafnaði Trump af hugrekki 70 ára einhuga stefnu Bandaríkjamanna um að þeir ættu að taka á eigin herðar forystu í heiminum. Innan við þrír mánuðir liðu þar til árásin á Sýrland leiddi skyndilega til stefnubreytingar með endurnýjun íhlutunarstefnunnar – ekki, rétt er að geta þess, til að taka þátt í krossferð undir merkjum lýðræðis heldur til að þjóna skýrum herstjórnarlegum markmiðum sem hafa verið skilgreind á víðtækan hátt og ná langt út fyrir landamæri okkar.

Til dæmis til Norður-Kyrrahafs. Í árásinni á Sýrland felast alvarleg skilaboð til Kínverja og Norður-Kóreumanna um að Trump kunni að grípa til einhliða aðgerða gegn kjarnorkuvopnum og eldflaugum Norður-Kóreustjórnar. Ólíklegt er að gripið verði til forvarnar-árásar á þennan vopnabúnað en nú er það ekki óhugsandi. Þó er enn hugsanlegra – ef til vill jafnvel líklegra – að eldflaug Norður-Kóreumanna verði skotin niður verði hún send á loft.

Skilaboðin til Rússa voru einnig skýr. Gangið ekki of langt í Sýrlandi, og sé litið lengra, í Evrópu. Við erum ekki að sækjast eftir bardaga, það er hins vegar ekki ykkar að ákveða reglurnar. Rússneskir hermenn höfðu aðsetur við hlið Sýrlendinga í Sharyat-flugherstöðinni. Ekki var hróflað við rússnesku herbúðunum en við létum nálægð þeirra greinilega ekki halda aftur af okkur.

Stóri lærdómurinn er þessi: Að lokum ráða þjóðarhagsmunir ferðinni. Popúlísk einangrunarhyggja hljómar vel, hrífur fjöldann og kann jafnvel að leiða til sigurs í kosningum. En hvað sem Stephen Bannon, ráðgjafi í Hvíta húsinu, kann að segja ræður hún ekki utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Bannon kann að hafa skrifað heimakæru innsetningarræðuna. En þá voru gömlu aðstoðarmennirnir að verki. Það var hópur hefðbundinna alþjóðasinna í utanríkismálum umhverfis Trump undir forystu Jims Mattis varnarmálaráðherra og H.R. McMasters þjóðaröryggisráðgjafa sem endurrituðu textann með Sýrlands-árásinni.

Assad braut gegn alþjóðlegu banni gegn efnavopnum. Hverjir aðrir en við geta tryggt að banninu sé framfylgt? Frambjóðandinn Trump hefði svarað: Ekki okkar mál. Forsetinn Trump greip til Tomahawk-stýriflauganna.

Utanríkisstefna hans snýst ekki lengur aðeins um heimavarnir heldur einnig um ákveðna hagsmuni, gildi og herstjórnarleg verðmæti erlendis. Hér er ekki um tímabundið viðfangsefni að ræða. Af því leiðir að við höfum jafnan látið að okkur kveða erlendis eftir síðari heimsstyrjöldina. […] Við höfum varanlegra hagsmuna að gæta. Og þeir birtast í ýmsum myndum. Einmitt þess vegna er Bannonisminn á undanhaldi.

Með þessu er ekki sagt að allt kunni ekki að breytast á morgun. Við höfum einmitt núna orðið vitni að einni kúvendingu. Undir stjórn forseta sem telur það sér til tekna að vera ófyrirsjáanlegur kann stefnunni auðveldlega að verða breytt á ný.

Hvað sem öðru líður halda fylgjendur hefðbundinnar stefnu um taumana núna. Stefna Bandaríkjanna er komin í eðlilegt horf. Heiminum hefur verið gert viðvart: Átta ára svefngöngu er lokin. Bandaríkin eru komin aftur.

 

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …