Home / Fréttir / CDU tapar illilega vegna bólusetningarvanda

CDU tapar illilega vegna bólusetningarvanda

816

Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, varð fyrir áfall í tvennum sambandslands-kosningum sunnudaginn 14. mars. Talið er að tapið megi reka til óánægju yfir viðbrögðum sambandsstjórnar Merkel vegna COVID-19-faraldursins.

Kosið verður til sambandsþingsins í Berlín í september 2021. Þá verður Merkel ekki í kjöri en hún hefur verið kanslari Þýskalands síðan 2005.

Verði úrslitin í Rheinland-Pfalz og Baden-Württemberg á þann veg sem útgönguspár gefa til kynna hefur CDU aldrei fengið verri útreið í kosningum þar.

Baden-Württemberg er í suðurhluta Þýskaland andspænis Frakklandi. CDU naut þar trausts til forystu samfellt í 58 ár. Nú fékk flokkurinn aðeins 23% langt fyrir neðan Græningja sem fengu 31% en þeir hafa haft stjórnarforystu í Stuttgart, höfuðborg sambandslandsins í 10 ár.

Í Rheinland-Pfalz tapaði CDU 6 stigum, fékk flokkurinn n 26%. Jafnaðarmenn (SPD) héldu forystu sinni með 34,5% atkvæða.

Lars Klingbeil, framkvæmdastjóri SPD, sagði í sjónvarpsviðtali þegar útgönguspárnar höfðu birst að úrslitin sýndu að mikil átök yrðu innan CDU um kanslaraefni flokksins fyrir kosningarnar í september þegar Merkel kveður.

Ekki eru nema um tveir mánuðir frá því að CDU naut meira fylgis en SPD í könnunum í Rheinland-Pfalz og stóð jafnfætis Græningjum í Baden-Württemberg. Stuðningur við CDU dróst saman þegar í ljós kom að í Þýskalandi tókst alls ekki að halda í við Bandaríkin og Bretland í bólusetningum. Þýskaland er þó fjórða öflugasta hagkerfi heims.

Það bætti ekki stöðu CDU að á undanförnum vikum neyddust þrír þingmenn að segja af sér vegna hneykslismála – tveir þeirra vegna ásakana um að hafa hagnast óeðlilega af sölu farsóttar-gríma.

Merkel naut mikilla vinsælda og trausts í fyrra fyrir viðbrögð sín við heimsfaraldrinum en nú geldur hún þess að hafa veðjað á ESB vegna bóluefna.

Nú hafa aðeins um 6% Þjóðverja fengið fyrstu bólusetningu sín a en í Bretlandi er hlutfall bólusettra 30%.

CDU glímir við forystukreppu. Kosningaúrslitin núna eru reiðarslag fyrir Armin Laschet sem var kjörinn flokksformaður fyrir nokkrum vikum. Nú rís vafi um hvort hann sé hæfur sem kanslaraefni flokksins í sambandsþingskosningunum í september. Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, þótti koma til álita sem kanslaraefni þar til fyrir skömmu þegar kröfur risu um afsögn hans vegna bólusetningar-hneykslisins.

Sá sem nú stendur eftir sem líklegt kanslaraefni er Markus Söder, forsætisráðherra Bæjarlands, leiðtogi CSU, bróðurflokks CDU.

Flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) sem skipar sér hægra megin við CDU hagnaðist ekki af falli CDU heldur tapaði AfD fylgi í báðum sambandslöndunum.

Jafnaðarmenn sitja í sambandsstjórninni undir forystu Angelu Merkel en þeir hafa haldið sér til hlés í bólusetningarhneykslinu. Fjármálaráðherrann Olaf Scholz er kanslaraefni jafnaðarmanna og nýtur hann virðingar vegna framgöngu sinnar við stjórn ríkisfjármálanna.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …