Sérsveitir breska hersins verða efldar og breska ríkið mun kaupa fleiri flugvélar og dróna til njósna. Þetta er meðal þess sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, kynnir mánudaginn 13. júlí þegar hann skýrir hvernig ríkisstjórnin hyggst nýta auknar fjárveitingar til varnarmála. George Osborne fjármálaráðherra skýrði frá því í síðustu viku að á hverju ári næsta áratugar yrði 2% af vergri landsframleiðslu Breta varið til varnarmála.
Forsætisráðherrann hefur borið lof á sérsveitirnar og háþróuð eftirlitstæki til að takast á við hryðjuverkamenn. Á þetta hefur meðal annars reynt í átökum við Íslamska ríkið (Ír) svonefnda í Írak og Sýrlandi.
Forsætisráðherrann heimsækir RAF Waddington- flugherstöðina mánudaginn 13. júlí en þaðan er Reaper-drónum sem notaðir eru yfir Írak og Sýrlandi stjórnað. Bretar hafa sent Tornado-orrustuvélar og Reaper-dróna meira en 1.000 sinnum yfir Ír og hefur verið ráðist á rúmlega 300 Íe-skotmörk.
Síðdegis mánudaginn 13. júlí tekur David Cameron á móti fulltrúum áhafnar nýja flugmóðurskipsins HMS Queen Elizabeth í Downing-stræti. Skipið verður tekið í notkun árið 2020 og vill forsætisráðherrann að það verði notað sem bækistöð fyrir sérsveitir, dróna og árásarvélar hvar sem hætta er á að hryðjuverkamenn láti að sér kveða.