
Bretar munu leggja sig fram um að hafa áhrif á utanríkisstefnu ESB eftir brottför sína en munu „leggja mest áherslu“ á NATO og tvíhliða samskipti við önnur ríki til að tryggja þjóðarhagsmuni sína, sagði David Cameron, forsætisráðherra Breta, á blaðamannafundi í Varsjá að loknum ríkisoddvitafundi NATO laugardaginn 9. júlí.
Forsætisráðherrann sagðist hafa sagt við aðra ríkisoddvita að Bretar væru „að fara úr Evrópusambandinu en ekki að snúa baki sínu við Evrópu eða öryggi Evrópu“. Hann sagði:
„Þegar við förum úr Evrópusambandinu hverfum við jafnframt frá fundarborði þess en Bretar hljóta að verða einn mikilvægasti samstarfsaðili ESB. Bretar ættu að standa eins nærri Evrópusambandinu og unnt er þegar hugað er að öryggismálum, alþjóðastjórnmálum, komu farandfólks og viðskiptum.“
Hann gaf til kynna að bresk herskip mundu áfram sinna verkefnum undir merkjum ESB í baráttu við sjóræningja á Aden-flóa og gegn smyglurum á fólki á Miðjarðarhafi.
Þeir mundu hvetja ESB-ríkin til að fylgja „sterkri og einhuga evrópskri stefnu“ gagnvart Rússum.
Þá boðaði hann einnig að Bretar mundu reyna að hindra að ESB kæmi á fót eigin herstjórnarkerfi við hliðina á kerfi NATO.
„Sú hætta er fyrir hendi … Þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa augun með,“ sagði hann og vísaði til ummæla Frakka og Þjóðverja um að koma yrði á fót hernaðarlegum höfuðstöðvum ESB.
Cameron sagði að Bretar mundu í auknum mæli nota annan vettvang til að gæta hagsmuna sinna.
„Nú verðum við að nýta öll önnur tengsl eins og okkur er frekast unnt hvort heldur NATO, G7, G20 eða samveldið,“ sagði hann og vísaði þar til tveggja klúbba auðugustu þjóða heim og fyrrverandi nýlendna Breta.
Hann sagði herafla Breta „mjög mikilvægan lið í að kynna vald og áhrif Breta um heim allan“.
„Nú erum stórveldi innan Evrópusambandsins þegar fram líða stundir verðum við stórveldi utan Evrópusambandsins,“ sagði hann og áréttaði þessi orð sín með því að segja að 18. júlí mundi hann bera undir atkvæði í breska þinginu tillögu um endurnýjun á kjarnorkuherafla Breta, svonefndum Trident-flota fjögurra kafbáta.
Bretar mundu senda 650 hermenn til starfa í Eistlandi og Póllandi í nýjum herafla NATO þar. Bretar mundu áfram halda úti herskipum á Eyjahafi í aðgerðum NATO gegn smygli á fólki frá Tyrklandi til Grikklands.
Heimild: EUobserver