Home / Fréttir / Bylting að ofan í Sádi-Arabíu

Bylting að ofan í Sádi-Arabíu

 

Muhammad bin Salman, krónprins í Sádi-A
Muhammad bin Salman, krónprins í Sádi-A

Sohrab Ahmari er fyrrverandi blaðamaður á The Wall Street Journal. Hann starfar nú við tímaritið Commentary og skrifar meðal annars um málefni Mið-Austurlanda en hann fæddist í Teheran, höfuðborg Írans, og fluttist þaðan 13 ára til Bandaríkjanna með foreldrum sínum.

Mikið umrót er nú á öllum sviðum í Sádí-Arabíu og telur Ahmari það boða miklar breytingar í arabaheiminum eins og sjá má á þessari grein sem er íslenskuð af vefsíðu Commentary þar sem hún birtist mánudaginn 6. nóvember 2017.

 

Um þetta leyti árið 2010 kveikti ungur ávaxtasali í Túnis í sér og hratt af stað byltingarbylgju sem fór um mikinn hluta Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Afleiðingarnar voru hörmulegar. Arabíska vorið svonefnda hleypti lífi í pólitíska íslamista, leiddi til misjafnlega mikillar upplausnar í fjórum arabaríkjum og gerði ríkisstjórn Írans fært að senda herflokka sína um svæðið. Sjö árum síðar er nýtt vor að koma og miklu meiri líkur eru á að af því leiði raunverulegar umbætur og velmegun fyrir araba.

Ég tala hér um Muhammad bin Salman og tilraunir hans til að breyta afturhaldssömu konungdæmi Sádi-Arabíu í nútíma þjóðríki. Takist þessum 32 krónprins Sáda sem jafnan er kallaður MBS ætlunarverk sitt skipar hann sér í hóp með mestu áhrifavöldum í Mið-Austurlöndum á okkar dögum, á borð við Reza Shah í Íran og Kemal Mustafa Atatürk í Tyrklandi á öldinni sem leið.

Síðasta dæmið um hugrekki krónprinsins birtist nú um helgina þegar öryggissveitir Sáda handtóku meira en 60 fyrrv. ráðherra, menn úr konungsfjölskyldunni og úr viðskiptalífinu í aðgerð gegn spillingu sem miðar einnig að því að lama keppinauta MBS um völdin í Sáda-Arabíu. Í hópi handtekinna eru Mutaib bin Abdullah prins, hugsanlegur keppinautur MBS um krúnuna, og Alwaleed bin Talal prins, einn auðugasti maður konungdæmisins. Hvorugur þeirra né aðrir hafa verið formlega ákærðir eða sætt meðferð fyrir framan dómara.

Nú um helgina bar einnig svo við að skjólstæðingur Sáda,  Saad Hariri, forsætisráðherra Líbanons, sagði af sér embætti á meðan hann dvaldist í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Það gefur til kynna að Sádar sætti sig ekki lengur við óbreytt ástand í Líbanon þar sem Hezbollah og aðrir vinir Írana ráða því sem þeir vilja. Þetta leiðir örugglega til falls ríkisstjórnar Líbanons. Enn bar það við að loftvarnasveitir Sáda skutu niður flugskeyti sem sent var í áttina að flugvelli Riyadh af Houthi-uppreisnarmönnum í Jemen sem njóta stuðnings Írana. Mánudaginn 6. nóvember sögðu stjórnvöld í Riyadh að flugskeytaárásin væri „skýlaus stríðsaðgerð“.

Að mati vinstrisinnaðra alþjóðafræðinga í Washington ber að líta á það sem gerist í Sádi-Arabíu sem brölt í metnaðarfullum alræðisherra sem fer fram úr sjálfum sér heima fyrir og erlendis. Hitt er ljóst að forystumenn Sáda ætluðu aldrei að sitja með hendur í skauti andspænis vaxandi yfirráðum Írana. Með stefnu sinni í kjarnorkumálum hafði Obama forseti og stjórn hans að engu hættu af Írönum auk þess sem hún lét hjá líða að greina geopólitískar afleiðingar af alhliða sókn Írana. Sádum þótti sem stjórnvöld í Washington hefðu sett þá til hliðar auk þess sem þeir áttuðu sig á veikleika eigin stjórnarhátta og kerfis. Tími mikillar uppstokkunar var kominn.

Í þessu ljósi er framtak MBS skynsamlegt. Lýðræðisþrá ræður síður en svo ferðinni hjá honum. Hann höfðar hins vegar til almennings, þjóðernishyggju og boðar engar blekkingar. Í því felst að hann kemur mjög til móts við þarfir araba á líðandi stundu og almennt viðhorf í heiminum öllum.

Lítum fyrst á skírskotunina til almennings. Með því að ráðast gegn spillingu höfðar MBS vel til almennra Sáda sem hafa fengið meira en nóg af þeim sem hafa sambönd og baða sig í opinberum fjármunum. Með því að leyfa konum að setjast undir stýri á bifreiðum og með því að losa um félagslegar hömlur sem settu ungu fólki nær óbærilegar skorður hefur MBS aflað sér stuðnings fólks sem vill að honum takist ætlunarverk sitt. Sádar fella ekki tár þótt prinsar séu lokaðir inni á Riyadh Ritz-hóteltinu.

Þá er það þjóðernishyggjan. Með því að létta hömlum af efnahagslífinu og láta ekki aðeins olíu standa undir þjóðarauðnum styrkir MSB grunnstoðir valds Sádi-Arabíu sem styrkir stjórn landsins í átökum við Írana. Á meðan olíuverð helst lágt hafa stjórnvöld Sádi-Arabíu ekki burði til að standa straum af kostnaði við risavaxið bóta- og velferðarkerfi ríkisins. Talið er að það verði auðveldara að kalla fram heilbrigða hollustu borgara konungdæmisins í garð þess en tekist hefur frá stofnun þess sé dregið úr bótagreiðslum sem rekja má til olíuauðsins. Í þessu felst almennt að MBS telur þjóðríkið best til þess fallið að takast varanlega á við áskoranir 21. aldarinnar. MBS skipar sér því í stækkandi hóp þjóðarleiðtoga með svipaða skoðun en þar má nefna Narendra Modi [Indlandi], Benjamin Netanyahu [Ísrael] og auðvitað Donald Trump.

Loks eru umbótaáform MBS raunsæ. Menn eins og Bernard Lewis [101 árs sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda] hafa flutt varnaðarorð og reynst hafa rétt fyrir sér þegar þeir segja að samfélög araba lagi sig ekki að fulltrúalýðræði eins og það er skilgreint á Vesturlöndum. Í Túnis er að finna dýrmæta undantekningu frá meginreglunni um að arabískt „lýðræði“ lýtur í lægra haldi fyrir íslamisma, upplausn ríkja og borgarastyrjöld. Breytingar að ofan, knúnar í gegn af vinsælum einstaklingi eins og MBS, gefa fyrirheit um hættuminni leið til umbóta og velmegunar fyrir Sáda og nágranna þeirra. Bandaríkjamenn ættu að taka þessu fagnandi – og leggja sitt af mörkum.

 

 

Skoða einnig

Pútin hefur ekki tíma til kosningabaráttu í fjölmiðlum

Rússneska forsetakosningabaráttan hófst formlega laugardaginn 17. febrúar og þá staðfesti yfirkjörstjórnin og talsmaður Kremlverja ákvörðun …