Home / Fréttir / Burke flotaforingi ræðir mikilvægi Keflavíkurflugvallar

Burke flotaforingi ræðir mikilvægi Keflavíkurflugvallar

Robert Burke flotaforingi
Robert Burke flotaforingi

Æðsti yfirmaður bandaríska flotans í Evrópu vakti á dögunum máls á mikilvægi þess að nota aðstöðu á Keflavíkurflugvelli í þágu kafbátaleitarflugvéla við núverandi stöðu mála á Norður-Atlantshafi þar sem stórveldi kepptu sín á milli.

Robert Burke aðmíráll, yfirmaður í Evrópu/Afríku-flotastjórnar Bandaríkjanna, flutti þriðjudaginn 2. febrúar ræðu á fjarfundi sem hugveiturnar U.S. Naval Institute og Center for Strategic and International Studies efndu til með fjárstuðningi frá Huntington Ingalls Industries.

Burke sagði: „Það voru 12 P-8 [eftirlitsvélar] á [Keflavíkur]vellinum þegar ég var þar í lok október. Þær höfðu mjög mikið að gera. Ég segi ykkur að þetta var ekki æfing og það er ekki erfitt að ímynda sér hvers vegna.“

Burke minnti áheyrendur sína á að árið 2019 hefði verið sagt frá því í fjölmiðlum að 10 rússneskir kafbátar hefðu verið á sveimi í Norður-Íshafi og Norður-Atlantshafi. Þaðan haldi þeir út á Atlantshaf og æfi hvernig þeir geti ógnað Evrópu og Bandaríkjunum með stýriflaugum til árása á skotmörk á landi.

Flotaforinginn benti á að sumum þessara flauga yrði, innan ekki mjög langs tíma, unnt að skjóta á ofurhljóðhraða. „Þetta er raunveruleg ógn og þetta er eitthvað sem við verðum að búa okkur undir að mæta.“

Frá ummælunum er skýrt á vefsíðunni Seapower, opinberu málgagni Navy League Bandaríkjanna, það er um 50.000 manna samtökum sem beita sér fyrir eflingu bandaríska flotans.

Í frásögninni er minnt á tvíhliða varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna. Íslendingar haldi ekki úti eigin herafla en leggi fram mikilvægan skerf með aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og rekstri eigin landhelgisgæslu.

Hreyfanlegar stjórnstöðvar geri bandaríska flotanum kleift að halda úti stjórn aðgerða frá Keflavíkurflugvelli á tímum þegar þess sé talin þörf.

Fyrir utan bandarísku P-8 eftirlitsflugvélarnar hafa Bretar nú eignast slíkar vélar til eftirlits á Norður-Atlantshafi og brátt eignast Norðmenn slíkar vélar. Bretar lögðu af kafbátaeftirlit úr lofti árið 2011 en hefja það nú að nýju. Norðmenn eiga P-3 kafbátaleitarvélar eins og Þjóðverjar, Spánverjar, Portúgalir og Grikkir. Frakkar og Ítalir halda úti Atlantique-vélum til kafbátaleitar.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …