Home / Fréttir / Búlgarar óttast fólksstraum frá Tyrklandi – Merkel mótmælt í Prag

Búlgarar óttast fólksstraum frá Tyrklandi – Merkel mótmælt í Prag

Bojko Borissov, forsætisráðherra Búlgaríu.
Bojko Borissov, forsætisráðherra Búlgaríu.

Bojko Borissov, forsætisráðherra Búlgaríu, segist óttast nýja bylgju flótta- og farandfólks haldi ekki samkomulag ESB og Tyrklands sem gert var í mars 2016. Hann minnir á að Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hafi þegar á árinu 2015 hótað að hann gæti „sökkt“ Evrópu með aðkomumönnum. Þetta segir Borissov í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) í Þýskalandi föstudaginn 26. ágúst.

Forsætisráðherrann segir: „Ég óttast það sem gerist í Tyrklandi.“ Nú sé það „mjög í tísku“ hjá sumum stjórnmálamönnum að slá um sig sem „hugrakkar hetjur“ sem veifi „skriðdrekum og flugvélum“. Þeir sem stöðugt séu með vopnaskak hljóti einhvern tíma að sjá sig knúna til að grípa til vopnanna.

Þegar hann vék að Erdogan og flóttamannasamkomulaginu sagði forsætisráðherrann að sá sem hótaði að sökkva Evrópu með aðkomumönnum segði ESB upp samkomulagi við sig yrði að standa við hótun sína.

Afleiðingar þess að þetta gerðist yrðu „ógnvekjandi“ fyrir Búlgara, sagði Borissov. Hann hvatti ESB til að veita fátækasta aðildarríki sínu meiri stuðning við gæslu landamæra sinna gagnvart Tyrklandi. Í raun hefði land sitt verið afskipt í þessu tilliti og hann vissi ekki hve lengi stjórn sín hefði þrek til að standast þrýstinginn á landamærunum.

Hann varði ákvörðun stjórnar sinnar um að reisa girðingu á landamærum sínum gagnvart Tyrklandi. Þetta væri eina leiðin til að vakta mörg hundruð kílómetra löng landamærin, ytri landamæri Evrópu gagnvart Tyrklandi.

Tyrkir yrðu að vita að Búlgarar stæðu ekki einir. Hann hvatti einnig til þess að reynt yrði að halda sem bestu sambandi milli ESB og Tyrklands.

Angela Merkel Þýskalandskanslari efnir nú til funda með leiðtogum allra ESB-ríkjanna til að undirbúa fund þeirra í Bratislava í Slóvakíu í september. Laugardaginn 27. ágúst efnir Merkel til fundar Meseberg-hðll í Brandenburg með forsætisráðherrum Búlgaríu, Austurríkis, Króatiu og Slóveníu.

Angela Merkel var í Prag fimmtudaginn 25. ágúst og ræddi við stjórnvöld þar. Henni varð ekki mikið ágengt að fá þau til að samþykkja stefnu sína og ESB í flóttamannamálum. Tékkneska miö-vinstristjórnin leggst eindregið gegn kvóta-stefnu ESB sem miðar að því að skylda aðildarríkin til að taka á móti ákveðnum fjölda flóttafólks. Bohuslav Sobotka, forsætisráðherra Tékklands, sagði Tékka ekki taka á sig neinar kvóta-skyldur, þeir væru á móti þeim. Merkel sagði að ræða yrði málið frekar.

Nokkur þúsund mótmælendur komu saman fyrir framan stjórnarbyggingu í Prag og hrópuðu: „Burt með Merkel!“

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …