
Þýsk yfirvöld brottvísa sífellt fleiri hælisleitendum og senda þá til Túnis, Marokkó og Alsír segir í frétt sem birt var í vikunni. Vilja yfirvöldin líta á löndin sem „örugg lönd“ og hraða með því afgreiðslu hælismálanna og framkvæmd brottvísunarinnar.
Dagblaðið Rheinische Post birti föstudaginn 22. febrúar frétt reista á heimildum úr þýska innanríkisráðuneytinu sem sýnir að í fyrra fjölgaði þeim um 35% sem fluttir voru brottvísaðir frá Þýskalandi til Marokkó. Alsír og Þýskalands.
Alls voru 1.873 hælisleitendur fluttir til Norður-Afríkulandanna á árinu 2018 en þeir voru 1.389 árið 2017. Talan árið 2018 er næstum 14 sinnum hærri en hún var árið 2015.
Fjölgunin var mest í flutningi fólks til Marokkó, úr 634 í 826.
Þeim hefur einnig fjölgað sem hefur verið brottvísað til Gana og Gambíu. Þá voru 422 sendir til Rússlands árið 2018 en talan var 184 árið 2017. Mikil fjölgun var á brottvísuðum til Indlands úr 32 í 212.
Gagnrýnt hefur verið að Afgönum sé vísað frá Þýskalandi en þeim fjölgaði einnig úr 121 árið 2017 í 284 árið 2018.