Home / Fréttir / Brotið blað í NATO-flugheræfingum í norðri

Brotið blað í NATO-flugheræfingum í norðri

Þessi mynd sýnir sænska JAS Gripen orrustuþotu, bandaríska B-52 sprengjuþotu og norska F-35 orrustuotu á æfingu yfir Norður-Noregi. Aldrei fyrr hefur birst mynd af sameiginlegri æfingu flugherja þessara landa.

Samhliða því sem Norðurfloti Rússa byrjar viðamikla æfingu á Barentshafi sýna flugherir undir merkjum NATO-samstarfsins styrk sinn í lofti yfir norðurhluta Skandinavíuskaga og staðfesta þannig í verki hvernig samstarf NATO-þjóða verður á þessum slóðum eftir að Finnar og Svíar ganga í bandalagið.

Fimmtudaginn 18. ágúst birtust ljósmyndir, meðal annars á vefsíðunni BarentsObserver, sem aldrei hafði áður verið unnt að taka, það er af sænskum og norskum orrustuþotum sameiginlega á æfingu með B-52, langdrægum sprengjuþotum Bandaríkjamanna.

B-52 vélunum var flogið yfir Norður-Atlantshaf frá Minot flugherstöðinni í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Sænsku orrustuþoturnar (tvær JAS Gripen) og norsku orrustuþoturnar (tvær F-35) voru á flugi yfir Noregshafi fyrir vestan Andøya í Norður-Noregi.

Flugvélarnar áttu hlut að æfingum norska landhersins á Setermoen skotæfingasvæðinu fyrir austan Tromsø.

„Að sjá JAS Gripen orrustuþotur okkar ásamt nokkrum þyngstu bandarísku vélunum og norskum F-35 er gott sýnilegt merki um styrkinn og samstöðuna innan NATO. Slík augnablik sýna hernaðarmáttinn innan NATO en þó það sem er miklu mikilvægara eindrægnina innan bandalagsins,“ segir sænski hershöfðinginn Carl-Johan Edström, yfirmaður sænska flughersins, á norsku vefsíðunni BarentsObserver.

Norski flugherinn hefur nýlega lagt öllum F-16 orrustuþotum sínum. Í staðinn koma nú stig af stigi 52 F-35 þotur. Finnar ákváðu í fyrra að kaupa 64 F-35 þotur og fyrstu vélarnar sem þeir fá verða með heimavöll í flugherstöðinni í Rovaniemi í Lapplandi.

Finnar, Svíar og Norðmenn munu innan næstu 10 ára hafa eignast um 250 nútíma orrustuþotur.

Rolf Folland, hershöfðingi, yfirmaður norska flughersins, fagnar samstarfinu við Svía og segir að til skoðunar sé að koma á fót einni aðgerðastjórnstöð norrænu flugherjanna. Þar yrðu gerðar aðgerðaáætlanir og þaðan yrði framkvæmd þeirra stjórnað.

Eftir æfinguna yfir Norður-Noregi flaug B-52 sprengjuþotan yfir Svíþjóð og kastaði sprengjum á skotmörk á sænska Vidsel-æfingasvæðinu á milli Jokkmokk og Arvidsjaur.

Bandarísku B-52 vélarnar verða um nokkurt skeið í Fairford flugherstöðinni í Bretlandi.

Flotaæfingar Rússa

Um þessar mundir efnir rússneski Norðurflotinn til æfinga á Barentshafi. Þar hefur risastóru svæði fyrir lokað fyrir almennri skipa- og flugumferð frá föstudeginum 19. ágúst.

Yfir 10 herskip og kafbátar munu með stuðningi úr lofti æfa varnir gegn árás á Rússland frá Varangerfirði og Kólaskaga í suðri til eyjaklasanna Franz Josef Land og Novaja Zemlja í norðri.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …