
Úrvalssveit rússneska landhersins er sögð hafa orðið illa úti í misheppnaðri árás hennar á bæinn Vuhledar megi marka gervihnattarmyndir sem sýna að fylkingu farartækja hafi verið grandað.
Breska leyniþjónustan birti þessar myndir sunnudaginn 26. febrúar og segir að þar megi sjá að minnsta kosti tíu skaðbrennd farartæki á snævi þaktri jörð sem er alsett sprengjugígum.
„Þessi farartæki eru líklega frá 155. stórfylki fótgönguliðs flotans (e. Naval Infantry, NI) sem hefur nýlega farið fyrir dýrkeyptum sóknaraðgerðum,“ segir breska varnarmálaráðuneytið.
Bendir ráðuneytið á að nú sé næsta víst að NI stórfylkin hafi orðið fyrir slíku tjóni að hafi þau verið talin öflugri en aðrar hersveitir Rússa hafi þau nú glatað því forskoti sínu – nú séu stórfylkin mönnuð af reynslulausum aðkomu liðsmönnum.
Vuhledar er tæpa 200 km fyrir suðvestan bæinn Bakhmut. Hafa Rússar lagt hart að sér við að ná Vuhledar í sókn sinni í Donbas héraði í austurhluta Úkraínu.
Þær fréttir bárust frá embættismanni í Mariupol, borg við Azovhaf sem Rússar náðu á sitt vald, að Úkraínuher hefði laugardaginn 25. febrúar sprengt þar upp skotfærabirgðir þótt til þessa hefði verið talið að borgin væri of langt frá víglínunni til að úkraínsk flugskeyti næðu þangað.
Myndir sem birtust á samfélagsmiðlum voru sagðar sýna eldhaf lýsa næturhimin eftir miklar sprengingar í hernumdu borginni.
Herstjórn Úkraínu sagði sunnudaginn 26. febrúar að sóknarlotur hers Rússa daginn áður nálægt Jahidne hefðu mistekist. Áður höfðu Wagner-málaliðar látið sem þeir hefðu náð þessu þorpi í austurhluta Úkraínu á sitt vald.
Í tilkynningu herstjórnarinnar sagði einnig að Rússar legðu áfram mikla áherslu á sókn sína á víglínunni við Bakhmut en Jahinde er hluti hennar.