Home / Fréttir / Breyttur og betri tónn milli ráðamanna Póllands og ESB

Breyttur og betri tónn milli ráðamanna Póllands og ESB

Vísundar í Bialowieska -skógi. Póslka stjórninr virðir ESB-dómínn til varnar skóginum.
Vísundar í Bialowieska -skógi. Pólska stjórnin virðir ESB-dóminn til varnar skóginum.

 

Pólska ríkisstjórnin tapaði þriðjudaginn 17. apríl máli fyrir ESB-dómstólnum þar sem tekist var á um verndun Bialowieska-skógar.

Pólski umhverfisráðherrann þrefaldaði árið 2016 fjölda trjáa sem mætti höggva í skóginum og rauf þar með bann við frekara skógarhöggi í honum. Þá var í fyrra ákveðið að fjarlægja tré með sníkjudýr úr skóginum. Einnig var ákveðið að grisja skóginn í því skyni að draga úr líkum á skógareldi.

Allt sem gert hefur verið í Bialowieska er undir smásjá náttúruverndarsamtaka enda var hann tilnefndur af ESB sem Natur 2000-svæði á sínum tíma sem felur í sér að þar beri að ganga fram af mikilli varúð og af miklu tilliti til náttúrunnar, þar með skordýra og fugla, svo að ekki sé minnst á vísundahjörðina sem býr þar. Framkvæmdastjórn ESB taldi skóginn einn best varðveitta, upprunalega skóginn í Evrópu, í raun frumskóg í orðsins fyllstu merkingu. Skógurinn er einnig á heimsminjaskrá UNESCO.

Reynt var að stöðva eyðingu skógarins eftir pólitískum leiðum. Mótmælendur lögðu einnig leið sína í skóginn. Pólsk stjórnvöld gáfu sig hins vegar ekki. Þá var þeim stefnt fyrir ESB-dómstólinn sem ákvað 17. apríl að stöðva ætti skógarhöggið.

Þetta er síður en svo eina málið sem skapað hefur spennu í samskiptum ríkisstjórnar Póllands og framkvæmdastjórnar ESB. Nokkrum klukkustundum eftir að dómurinn féll ræddu Evrópumálaráðherrar ESB-ríkjanna stöðu Póllands. Að þessu sinni snerust umræðurnar um réttaröryggi.

Framkvæmdastjórn ESB segir að frá árinu 2015 hafi Pólverjar hert pólitísk tök á réttarkerfinu. Dómsmálaráðherrann getur til dæmis að eigin frumkvæði svipt forseta einstakra dómstóla embættum sínum. Meirihluti þingmanna ákveður hverjir skuli sitja í ráði sem tilnefnir nýja dómara.

Framkvæmdastjórn ESB segir að skortur á skilum milli þriggja arma ríkisvaldsins í Póllandi raski lýðræðislegum grunnstoðum sambandsins. Eftir árangurslausar viðræður við pólsk stjórnvöld ákvað framkvæmdastjórn ESB þess vegna í desember 2017 að stíga mjög óvenjulegt skref með því að hefja svonefnt „kjarnorkusprengjuferli“ gegn Pólverjum. Það getur leitt til þess að ríki sé svipt atkvæðisrétti innan ESB fari það ekki að reglum sambandsins.

Í Jyllands-Posten segir fimmtudaginn 19. apríl að spennan í samskiptum ESB og Pólverja hafi minnkað undanfarna mánuði og andrúmsloftið sé betra en áður. Enginn talar lengur um kjarnorkusprengjur og eftir ráðherrafundinn 17. apríl hafi allur annar og betri tónn verið í ráðherrunum en oft áður.

Michael Roth, Evrópuráðherra Þýskalands, sagði að enn væru menn ekki sammála um allt en teldu að viðunandi málamiðlun næðist að lokum.

Mateusz Morawiecki tók við embætti forsætisráðherra í Póllandi í desember 2017. Hann er velviljaðri í garð Brusselmanna en forveri hans. Þá hefur pólska þingið nú samþykkt lög þar sem tekið er á atriðum sem sætt hafa gagnrýni frá Brussel.

Í nýju ákvæðunum eru til dæmis settar skorður við valdi dómsmálaráðherrans og sömu eftirlaunareglur gilda nú um karla og konur í stétt dómara.

Í Jyllands-Posten segir að líta beri á að mildari afstöðu Pólverja í því ljósi að innan nokkurra vikna leggi framkvæmdastjórn ESB fram tillögu sína að sjö ára fjárlögum sambandsins. Meðal ESB-ríkjanna eigi sú skoðun vaxandi fylgi að fagna að við skiptingu fjár á milli aðildarríkjanna skuli litið til þess hvernig þau virða grundvallarsjónarmið ESB. Ekkert ríki fær meiri fjárstuðning frá ESB en Pólland og stjórnvöld þar hafa engan hag af því að veikja stöðu sína áður en tekið verður til við að semja um skiptingu fjárveitinga á næstu sjö árum.

Ráðamenn í Varsjá hafa einnig lýst vilja til að virða ESB-ákvarðanir varðandi Bialowieska-skóginn.

„Pólland virðir dóminn,“ sagði Henryk Kowalczyki umhverfisráðherra í tölvubréfi: „Umhverfisráðuneytið leggur bráðlega fram tillögu að málamiðlun varðandi skóginn fyrir framkvæmdastjórn ESB.“

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …