
Theresa May, forsætisráðherra Breta, fór til Brussel fimmtudaginn 21. mars til að tala fyrir þeirri ósk sinni í leiðtogaráði ESB að úrsögn Breta úr sambandinu frestaðist frá 29. mars til 30. maí.
Niðurstaðan í ráðinu var að samþykki neðri deild breska þingsins í næstu viku skilnaðar-samkomulag May frestist úrsögnin til 22. maí. Verði tillaga May felld hafa Bretar frest til 12. apríl til að leggja fram nýja úrsagnar-áætlun. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, sagði „allt geta gerst“ til 12. apríl þar á meðal að úrsagnarfresturinn yrði lengdur eða Breta hættu alfarið við Brexit.
Breska íhaldsblaðið The Daily Telegraph birti föstudaginn 22. mars leiðara um stöðuna vegna Brexit. Hann kemur hér fyrir neðan í íslenskri þýðingu:
Utanríkisráðherrann Jeremy Hunt gerði hetjulega tilraun til að verja forsætisráðherrann fyrir gagnrýni, jafnvel háði, eftir að hún flutti sjónvarpsávarpið úr Downing-stræti á miðvikudagskvöldið [20. mars]. Hann [Hunt] sagði í Today-þætti BBC 4 útvarpsins að May væri „staðráðin í að hrinda í framkvæmd því Brexit sem hlaut atkvæði fólksins“. Þó sjást þess alls engin merki að þetta sé það sem fyrir henni vakir. Hún reynir að þvinga í gegnum þingið samkomulagi sem hún gerði til að fullnægja þeim skilyrðum sem hún setti sjálf.
Mikill meiri hluti þingmanna neðri deildarinnar hefur tvisvar hafnað samkomulaginu og skoðanakannanir sýna að almenningur hefur andúð á málinu eins og þingmenn. Í stuttu og næsta önugu ávarpi sínu til þjóðarinnar reyndin hún að laða fólk til fylgis við þetta framtak, sem í sjálfu sér var umdeilanlegt stjórnskipulegt frumkvæði. En til hverra talaði hún? Bæði aðildarsinnar og úrsagnarsinnar segja hana ekki boða neitt sem þeir vilja.
Vandi hennar felst raunar í þeirri staðreynd að þeir geta ekki komið sér saman um hvað þeir vilja; að mistakist að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þinginu leiðir þó ekki til þess að ástæða sé til að hafa löggjafarstofnunina að engu. Þá ber þess að geta að hún situr af því að þingið sýnir henni eftirlátssemi. Hvenær sem þeir vilja geta þingmenn losað sig við hana í atkvæðagreiðslu. Hunt vék að öðru stjórnskipulegu vandamáli þegar hann sagði að þingi án meirihluta bæri skylda til að styðja ríkisstjórnina við að koma Brexit-samkomulaginu í höfn.
Þessu virtist beint til stjórnarandstöðunnar; en hvers vegna skyldu þingmenn Verkamannaflokksins eða Skoska þjóðarflokksins styðja samkomulag sem margir þingmenn úr flokki May hafna? Í þingi án meirihluta er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að mynda þann meirihluta sem dugar til að afgreiða mál. Nú hefur hann verið myndaður með DUP [Lýðræðisflokknum á N-Írlandi] en það dugar ekki til að skapa meirihluta fyrir Brexit-samkomulaginu vegna ágreinings um írska varnaglann.
Það er ekki öðrum flokkum að kenna jafnvel þótt andstaða þeirra við skilnaðar-samkomulagið sé að mestu til að sýnast þar sem í því er að finna svör við mörgum kröfum þeirra um náið samstarf um regluverk og tolla. Venjulega bregður ríkisstjórn sem hefur ekki meirihluta til að koma málum sínum ekki í gegnum þingið á það ráð að boða til kosninga.
Af ýmsum margræddum ástæðum hefur May ekki gert það og hún var ekki felld með einu vantrauststillögunni sem Verkamannaflokkurinn hefur flutt gegn henni. Forsætisráðherrann hafði hins vegar rétt fyrir sér þegar hún sagði að fara bæri að vilja bresku þjóðarinnar um úrsögn úr ESB, auðvitað er unnt að gera það með því að virða þá dagsetningu sem tvisvar hefur hlotið samþykki neðri deildarinnar: 29. mars. May var engu að síður í Brussel í gær að leita samkomulags um að lengja aðild Breta.
Þótt mörg hneykslunarorð sem féllu eftir sjónvarpsávarp hennar hafi verið innantóm var samt óþægilegt að hlusta á forsætisráðherrann ráðast á þingið á þennan hátt. Að biðla til fólksins á kostnað þingsins er á mörkum lýðskrums sama hve miður sín hún er vegna þess að það hefur hafnað tilmælum hennar. Þar að auki var það til þess fallið að auka á vanda hennar, þótt hún tali illa um þá, þarf hún á atkvæðum þingmannanna að halda til að ná máli sínu í gegn.
Leyfi þingforsetinn ætlar hún enn einu sinni að bera tillögu sína undir atkvæði, blasir þá við að hún verði felld enn á ný – að þessu sinni örugglega endanlega. Þegar mikill meirihluti þingmanna samþykkti á sínum tíma lögin um úrsögn úr ESB vildi hann að til hennar kæmi eftir rétta viku. Fari svo að það gerist án samnings verður enginn umþóttunartími og skyldan til að greiða 39 milljarða punda hverfur.
Raunar dugar að minna á þetta eina atriði til að benda á að ekki kemur til úrsagnar án samnings af því að ESB tapar þá eins miklu og Bretar, ef ekki meiru. Að leiðtogaráð ESB skyldi sitja á fundi langt fram á kvöld í gær til að ræða um ýmsar leiðir til að lengja úrsagnarfrestinn sýnir að leiðtogunum stendur ekki alveg á sama um þetta.
Sumir segja ranglega að Bretar verði nú annaðhvort að beygja sig undir valdaafsal samkvæmt ákvæðum skilnaðar-samkomulagsins eða afturkalla úrsögn samkvæmt 50. gr. Sá kostur er enn fræðilega fyrir hendi að fresta úrsögninni til 2020 nema eitthvert ESB-ríki beiti neitunarvaldi gegn því.
Komi til þess verða Bretar að bjóða fram í ESB-þingkosningunum sem yrði þjóðarhneisa um það bil þremur árum eftir þjóðin ákvað að kveða sambandið.