Home / Fréttir / Brexit-samningi fagnað beggja vegna Ermarsunds

Brexit-samningi fagnað beggja vegna Ermarsunds

Boris Johnson fagnar brexit-samkomulaginu.
Boris Johnson fagnar brexit-samkomulaginu.

Bretar og Evrópusambandið komust loks að samkomulagi um viðskiptasamning á aðfangadag (24. desember 2020) eftir stífar samningaviðræður í 11 mánuði. Þar með er ljóst hvernig samskiptunum milli þeirra verður háttað eftir að Bretar segja endanlega skilið við ESB eftir tæplega 50 ára aðild.

„Við endurheimtum lagasetningarvald okkar og ráðum sjálf eigin örlögum. Við endurheimtum vald yfir hverju einasta smáatriði í regluverki okkar á þann veg að ekki verður um það deilt,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, þegar hann kynnti samninginn á blaðamannafundi í Downing-stræti síðdegis 24. desember.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, flutti hófstilltara ávarp í Brussel:

„Þegar árangursríkum viðræðuleiðangri lýkur fyllist ég venjulega gleði. En í dag finn ég aðeins fyrir þögulli sátt og í sannleika sagt létti,“ sagði hún og vitnaði í Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare um sæta sorg skilnaðarins.

Hún lét þess jafnframt getið að sameiginlegi markaðurinn yrði varinn fyrir ósanngjarnri samkeppni af hálfu Breta. „Sameiginlegi markaðurinn er og verður sanngjarn,“ sagði hún.

Von der Leyen hvatti 440 milljón Evrópumenn sem verða áfram í ESB, sambandi 27 ríkja, til að ýta dramatískum átökum undanfarinna fjögurra ára frá brexit-þjóðaratkvæðagreiðslu Breta aftur fyrir sig og horfa til framtíðar.

„Það er tímabært að láta brexit heyra sögunni til. Framtíð okkar ræðst í Evrópu,“ sagði hún.

Árið 1985 sögðu Grænlendingar skilið við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin önnur þjóð gerði það þangað til Bretar samþykktu í júní 2016 að hverfa úr sambandinu. Formlega hurfu þeir úr ESB 31. janúar 2020 en þá hófst umþóttunartími til að láta reyna á gerð fríverslunarsamnings fyrir 1. janúar 2021. Á ellefu mánuðum náðu endar saman við gerð samningsins. Það er afrek í sjálfu sér í samanburði við margra ára viðræðuferli ESB og Kanadamanna svo að dæmi sé tekið.

Samningurinn er um 2.000 bls. að lengd og að lokum var tekist á um hve lengi ESB-þjóðir hefðu rétt til veiða í breskri lögsögu. Var samið um tæplega sex ára umþóttunartíma þar. Bretar héldu mjög fast í þennan rétt sinn. Af hálfu ESB var lögð höfuðáhersla á að vernda sameiginlega markaðinn og að Bretar gætu ekki raskað honum með óhæfilegri samkeppni.

Von der Leyen sagði að þótt Bretland yrði nú „þriðja ríki“ gagnvart ESB yrði litið á Breta sem trausta samstarfsaðila.

Athygli vakti hve hlýleg orð Boris Johnson lét falla um samstarfið við ESB á nýjum grunni. Það yrði í raun auðveldara fyrir Breta að eiga samstarf við evrópska nágranna sína og vini með sérstöðu sína viðurkennda og sjálfræði í eigin málum en sem ágreiningsaðila í ríkjasambandi þar sem þeir hefðu í raun aldrei átt heima.

Næsta formlega skref er kynning á samkomulaginu fyrir fastafulltrúum ESB-ríkjanna í Brussel á jóladag. Síðan fer það í ferli innan ESB. Viðtökur ráðamanna í einstökum ESB-ríkjum eru á þann veg að enginn efast um að samningurinn fái brautargengi innan sambandsins.

Breska þingið kemur saman miðvikudaginn 30. desember. Sir Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, lýsti yfir að flokkurinn styddi samninginn. Það efast því enginn um að meirihluti breskra þingmanna geri það.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …