Home / Fréttir / Brexit: Breskir ráðherrar ræða EES sem plan B

Brexit: Breskir ráðherrar ræða EES sem plan B

brexit-news-1022759

Á vefsíðunni The Telegraph segir laugardaginn 1. desember að átta breskir ráðherrar hafi hist leynilega til að ræða B Brexit-áætlun sem felst í aðild að EFTA og EES verði Brexit-tillaga Thereseu May forsætisráðherra felld í neðri deild breska þingsins.

Til sögunnar eru nefndir vegna málsins utanríkisráðherrann  Jeremy Hunt, umhverfisráðherra Michael Gove, löggjafarráðherra Geoffrey Cox heilbrigðisráðherra Matt Hancock, vinnu- og eftirlaunaráðherra Amber Rudd fjármálaráðherra Philip Hammond, viðskiptaráðherra Greg Clark og dómsmálaráðherra David Gauke.

Þá segir The Telegraph að blaðið hafi fregnað að Brandon Lewis, formaður Íhaldsflokksins, lýsi í einkasamtölum stuðningi við EES-átælunina. Hann hafi þó mótmælt því harðlega föstudaginn 30. nóvember.

Blaðið segir að í um það bil mánuð hafi ráðherrar rætt þessa lausn sín á milli. Theresa May hefur hins vegar hafnað þessari leið. Hún segir að með EES-aðild verði ekki lokað fyrir frjálsa för fólks. Þess vegna dugi hún ekki til að koma til móts við það sem þjóðin vildi í atkvæðagreiðslunni árið 2016.

May ræddi við blaðamenn í flugvél á leið til Buenos Aires fyrr í vikunni og sagði:

„Í upphafi viðræðna við ESB voru tvær lausnir á borðinu: önnur kennd við Noreg [EES] hin við Kanada, fríverslunarsamningur.

ESB sagði ekkert annað í boði en það sem menn sjá nú í [Brexit] samkomulaginu er metnaðarfyllri fríverslunarsamningur en Kanada-samningurinn, hann bindur enda á frjálsa för sem Noregur [EES] gerir ekki. Þetta er þess vegna rétti samningurinn fyrir Bretland.“

Ráðherrarnir sem styðja EES-leiðina telja hins vegar að þeir geti aflað sér stuðnings rúmlega 70 þingmanna Verkamannaflokksins, DUP-flokksins á Norður-Írlandi og jafnvel Skoska þjóðarflokksins, SNP. „Þetta er eini raunhæfi kosturinn,“ sagði einn ráðherranna.

Nú í júní studdu 76 þingmenn Verkamannaflokksins misheppnaða tilraun í þinginu til að samþykkja aðild að EES eftir Brexit.

Nick Boles, fyrrv. ráðherra Íhaldsflokksins, er helsti baráttumaður fyrir EES-lausninni. Hann segir:

„Eins og málum er nú háttað þörfnumst við samkomulags sem ESB samþykkir og nýtur stuðnings meirihluta þingmanna. Hraðvaxandi áhugi ráðherra sýnir svo ekki verður um villst að þeir viðurkenna að EES-áætlun getur fullnægt þessum skilyrðum.“

 

 

 

Skoða einnig

Hælisleitendur peð Rússa gagnvart Finnum

Fréttamenn finnska ríkisútvarpsins, Yle, ræddu við þrjá hælisleitendur sem komu til Finnlands frá Rússlandi um …