
Breskir þingmenn studdu síðdegis þriðjudaginn 22. október tillögu Boris Johnsons, forsætisráðherra Breta, um viðskilnað við ESB en höfnuðu síðan tímaáætlun um samþykkt laga sem setja þarf vegna úrsagnarinnar.
Boris Johnson hringdi í leiðtoga ESB-landa að lokinni atkvæðagreiðslunum. Segir í fréttum að hann fallist ekki á þriggja mánaða frestun úrsagnarinnar en útiloki ekki stutta framlengingu frá 31. otkóber, allt að 10 dögum, til að koma brexit-málum í gegnum þingið.
Í fyrri atkvæðagreiðslu dagsins studdi meirihluti þingmanna tillögu sem laut að úrsögn úr ESB, greiddu 30 fleiri þingmenn tillögunni atkvæði en höfnuðu henni. Fyrir atkvæðagreiðslurnar lá fyrir að minni stuðningur yrði við afgreiðslu-tillöguna en efnislegu tillöguna. Neikvæðu úrslitin komu ríkisstjórninni því ekki í opna skjöldu. Þegar þau höfðu verið kynnt sagði Boris Johnson þingmönnum að gert yrði hlé á þingmeðferð frumvarpanna.
Í ræðum þingmanna allra flokka komu fram áhyggjur vegna þess þrönga tímaramma, þriggja daga, sem ríkisstjórnin vildi setja afgreiðslu lagafrumvarpa vegna brexit sem sögð eru vera alls um 400 bls. að lengd.
Íhaldsþingmaðurinn Ken Clarke (79 ára) sem setið hefur á þingi síðan 1970, lengst núverandi þingmanna, hvatti Johnson til að gera ekki hlé á þingmeðferðinni heldur nýta allan þann tíma sem hann þyrfti. Það yrðu ef til vill ekki nema þrír fjórir dagar umfram þá þrjá sem stjórnin ætlaði til afgreiðslu málanna, það er að henni yrði lokið fimmtudaginn 24. október.
Hraði ríkisstjórnarinnar ræðst af því að Boris Johnson hefur gert að höfuðmarkmiði að hverfa úr ESB 31. október 2109. Hann hefur lagt þunga pólitíska áherslu á dagsetninguna og ekki viljað ljá máls á öðrum dagsetningum. Sagðist Johnson ætla að heyra hljóðið í ESB-mönnum áður en lengra yrði haldið.
Ríkisstjórnin og talsmenn hennar sæta gagnrýni úr röðum stuðningsmanna sinna fyrir að sækja mál sitt vegna afgreiðslu-áætlunarinnar af allt of miklum þunga. Af hálfu stjórnarinnar var hafnað að birta ýmsar álitsgerðir um áhrif lagafrumvarpanna og því hótað að allt yrði afturkallað yrði tillagan um áætlunina ekki samþykkt.
Jacob Rees-Mogg, ráðherra þingmála, sagði að afgreiðslunni lokinni að umræðum um stefnuræðu drottningarnar yrði fram haldið miðvikudag og fimmtudag. Hann sagði brexit-málin hvorki hafa komist til himna né væru þau í víti heldur í hreinsunareldinum sem gæti oft verið erfitt.
Hvað sem frekari afgreiðslu málsins líður er því haldið til haga af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar að nú hafi þingið loks stutt brexit-tillögu. Um leið og þetta sé verulegur efnislegur ávinningur undir forystu Johnsons bindi það einnig hendur hans gagnvart framhaldinu. Hann eigi mun erfiðara en áður með að leggja til úrsögn án samnings eftir að þingmenn hafi samþykkt samning hans.
Í lok fréttaskýringar á vefsíðu The Spectator segir: „Hvernig forsætisráðherrann ætlar að komast út úr þessari klípu er jafn óljóst og það hefur verið undanfarin þrjú ár.“