Home / Fréttir / Bretland: Varnarmálaráðherrann rekinn vegna leka um Huawei

Bretland: Varnarmálaráðherrann rekinn vegna leka um Huawei

Gavin Williamson
Gavin Williamson

Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Breta, var rekinn úr ríkisstjórninni miðvikudaginn 1. maí sakaður um að hafa lekið upplýsingum sem fram komu á fundi þjóðaröryggisráðsins um aðild kínverska fyrirtækisins Huawei að þróun 5G net- og farsímakerfisins í Bretlandi. Williamson neitar þessum ásökunum „eindregið“.

Um er að ræða upplýsingar tengdar Huawei og 5G sem ræddar voru í þjóðaröryggisráðinu 23. apríl. Vegna leka af fundi ráðsins gaf Theresa May forsætisráðherra fyrirmæli um að málið yrði kannað.

Í bréfi til Williamsons sagði May að könnunin hefði „leitt í ljós sannfærandi vísbendingar um ábyrgð þína á birtingu án heimildar. Engin önnur trúverðug skýring á lekanum hefur komið fram.“

Skömmu eftir að sagt var frá brottrekstrinum birti Williamson yfirlýsingu þar sem hann neitaði „eindregið“ allri aðild að lekanum og sagði að formleg rannsókn hefði hreinsað hann af öllum grun.

Penny Mordaunt verður varnarmálaráðherra. Hún hefur verið ráðherra þróunarmála og er varaliði í breska flotanum. Rory Stewart fangelsismálaráðherra kemur í stað Mordaunt í þróunarráðuneytið.

Eftir fundinn í þjóðaröryggisráðinu í fyrri viku sögðu breskir fjölmiðlar frá því að ráðið hefði samþykkt að Huawei ætti aðild að sumum þáttum innleiðingar 5G-kerfisins í Bretlandi.

Í The Daily Telegraph var sagt að May hefði samþykkt aðild Huawei að ýmsum jaðarverkefnum í tengslum við innleiðinguna, t.d. við uppsetningu loftneta.

Bandaríkjastjórn hefur hvatt bandamenn sína í Evrópu til að útiloka Huawei frá 5G-kerfinu þar sem fyrirtækinu sé skylt að kínverskum lögum að láta stjórnvöld í Peking hafa bakdyra-aðgang að gögnum í kerfum þess. Huawei hafnar öllum aðdróttunum um náið samband sitt við kínversk yfirvöld.

 

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …