Home / Fréttir / Bretland: Utanríkisráðherrann segir fyrrv. hershöfðingja vilja græða á gálausu tali um stríð við Rússa

Bretland: Utanríkisráðherrann segir fyrrv. hershöfðingja vilja græða á gálausu tali um stríð við Rússa

Philip Hammond
Philip Hammond

Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, hefur harðlega gagnrýnt Sir Richard Shirreff, fyrrverandi hershöfðingja og fyrrverandi vara-yfirmann Evrópuherstjórnar NATO, fyrir að hafa skrifað skáldsöguna 2017 War with Russia þar sem gefið er til kynna að draga kunni til kjarnorkustríðs við Rússa.

Bókin kom út miðvikudaginn 19. maí og gagnrýni utanríkisráðherrans birtist á vefsíðunni The Telegraph fimmtudaginn 20. maí. Segir ráðherrann að Sir Richard Shirreff hafi gerst sekur um „frekar óþægilega framkomu“ sem megi einfaldlega rekja til áhuga hans á að græða peninga.

Sir Richard var annar æðsti yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO árin 2011 til 2014. Lýsir hann í bók sinni að innrás Rússa í Eystrasaltsríkin geti leit til átaka með kjarnorkuvopnum. NATO haldi úti of fámennu herliði í löndunum til að fæla Rússa frá árás. Hammond segir að orð hershöfðingjans fyrrverandi „ýti undir fjandskap“ og einkennist „af miklu gáleysi“ á tímum þegar Kremlverjar „leggja sig fram um að rangtúlka“ varnarviðbrögð NATO og segja þau óvinabrögð.

Á fundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel sagði utanríkisráðherrann að sér þætti þetta „frekar truflandi framkoma“ og bætti við: „Ég veit að hann þarf að selja bókina og ég dreg ekki í efa að hann skuldi húsnæðislán, hann var hins vegar háttsettur herforingi NATO og þetta er einfaldlega ábyrgðarlaust tal.[…] Að mínu viti telur enginn alvörumaður hér á þessum stað að minnstu líkindi séu til að atburðarásin verði eins og hann lýsir.“

Utanríkisráðherrann og Sir Richard hafa áður deilt. Hammond var varnarmálaráðherra þegar hershöfðinginn starfaði fyrir NATO og hefur Sir Richard sagt að Hammond hafi reynt að fá sig dreginn fyrir herrétt fyrir að fara þeim orðum um niðurskurð útgjalda til varnarmála að í honum fælist „fjandi mikil áhætta“. Embættismenn í starfsliði ráðherrans segjast ekki kannast við þetta.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …