Home / Fréttir / Bretland: Stórsigur íhaldsmanna – afhroð Verkamannaflokksins

Bretland: Stórsigur íhaldsmanna – afhroð Verkamannaflokksins

Sigurglaður Boris Johnson forsætisráðherra.
Sigurglaður Boris Johnson forsætisráðherra.

Breski Íhaldsflokkurinn vann sögulegan sigur í þingkosningum fimmtudaginn 12. desember þegar hann vann 54 þingsæti af Verkamannaflokknum og hlaut 365 þingmenn kjörna með 43,6% fylgi (+1,2 frá 2017). Íhaldsflokkurinn hefur nú 80 manna meirihluta í neðri deild breska þingsins. Þetta er mesti sigur flokksins síðan 1987 þegar Margaret Thatcher var leiðtogi hans og forsætisráðherra.

Í ræðu sem Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, flutti í Downing-stræti síðdegis föstudaginn 13. desember færði að hann þeim kjósendum sem yfirgáfu Verkamannaflokkinn og studdu Íhaldsflokkinn sérstakar þakkir og hét því að bregðast þeim ekki. Þá áéttaði hann að Bretar færu úr ESB 31. janúar 2020.

Fyrr um daginn hafði Johnson gengið á fund Elísabetar II. Bretadrottningar og fengið umboð hennar til að sitja áfram sem forsætisráðherra.

Úrslit kosninganna eru reiðarslag fyrir Verkamannaflokkinn og Jeremy Corbyn, leiðtoga hans. Síðdegis föstudaginn 13. desember gengu sífellt fleiri nýkjörnir þingmenn flokksins og fráfarandi forystumenn hans og kröfðust tafarlausrar afsagnar Corbyns auk þess sem horfið yrði frá sósíalismanum sem hann hefur boðað. Þetta er versta útreið Verkamannaflokksins í þingkosningum frá 1935.

Íhaldsflokkurinn fær 365 þingmenn, 66 fleiri en árið 2017, 43,6% atkvæða (+1,2 frá 2017).

Verkamannaflokkurinn fær 203 þingmenn, tapaði alls 42, hlaut 33,6% (-7,8 frá 2017).

Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) fékk 48 þingmenn, 13 fleiri en 2017, og 3,6% atkvæða (+0,8 frá 2017).

Frjálslyndi flokkurinn fékk 11 þingmenn, tapaði 10, þar með leiðtoga sínum Jo Swinson. Flokkurinn fékk 11,6% (+ 4,6 frá 2017).

Nicola Sturgeon, leiðtogi SNP og fyrsti ráðherra Skotlands, segir að sigur flokks síns sýni að sjálfstæði Skotlands sé aftur á dagskrá og efna verði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Á Norður-Írlandi styrktu þeir sem vilja sameina íbúa Írlands í eitt ríki stöðu sína.

Breska þingið kemur saman þriðjudaginn 17. desember. Drottningin flytur stefnuræðu nýju stjórnarinnar fimmtudaginn 19. desember og greidd verða atkvæði um viðskilnaðarsamning Bretlands og ESB föstudaginn 20. nóvember að sögn breskra fjölmiðla.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …