Home / Fréttir / Bretland: Skýrsla um Rússa-afskipti af brexit-atkvæðagreiðslunni í biðstöðu

Bretland: Skýrsla um Rússa-afskipti af brexit-atkvæðagreiðslunni í biðstöðu

ethical_hacker

Harðar umræður eru í Bretlandi vegna gruns um að Boris Johnson forsætisráðherra vilji halda leyndri skýrslu um hugsanlega íhlutun Rússa í bresk stjórnmál fram yfir þingkosningarnar 12. desember 2019. Kröfur um birtingu skýrslunnar harðna. The Sunday Times segir að í skýrslunni sé upplýst að níu rússneskir auðmenn hefðu veitt Íhaldsflokknum fjárstuðning.

Hillary Clinton, fyrrv. forsetaframbjóðandi demókrata gegn Donald Trump árið 2016, er í London að kynna bók sem hún hefur skrifað með Chelsea, dóttur sinni. Clinton telur Rússa hafa beitt sér með leynd til stuðnings Trump á sínum tíma. Þegar hún var spurð af fréttamanni BBC hvað henni þætti um hugsanleg afskipti Rússa af kosningum í Bretlandi lá hún ekki á skoðun sinni. Hún sagði „óskiljanlegt og til skammar“ að ríkisstjórnin birti ekki fyrir 12. desember skýrslu sem þingmenn hefðu gert um hugsanleg afskipti Rússa af breskum stjórnmálum. Í hennar huga væri ekki vafi á því að Rússar reyndu að „hafa mótandi áhrif á stjórnmál vestrænna lýðræðisríkja“.

Boris Johnson fékk skýrsluna í hendur 17. október 2019. Hún var samin af þingnefnd með fulltrúum allra flokka á 18 mánuðum og er um 50 bls. að lengd. Dominic Grieve, formaður þingnefndar um leyniþjónustumál (ISC), hvetur til þess að skýrslan sé birt. Grieve er í hópi íhaldsmanna sem risið hafa gegn Boris Johnson. Hann segir að í skýrslunni sé að finna upplýsingar sem eigi erindi til kjósenda.

Af hálfu forsætisráðuneytisins er bent á að farið sé að reglum um birtingu skýrslunnar. Sajid Javid fjármálaráðherra segir að frestun birtingarinnar sé „fullkomlega eðlileg“ vegna þess hve um viðkvæmar upplýsingar sé að ræða.

Sérfræðingar greindu kosningabaráttuna fyrir brexit-atkvæðagreiðsluna í júní 2016. Var sérstaklega hugað að hugsanlegum afskiptum Rússa. The Sunday Times segir að í skýrslunni séu níu auðugir Rússar nefndir til sögunnar vegna fjárstuðnings við Íhaldsflokkinn. Sumir þeirra hafi náin tengsl við Kremlverja eins og Alexander Temerko sem starfaði fyrir rússneska varnarmálaráðuneytið. Hann er sagður hafa styrkt Íhaldsflokkinn með 1,2 milljónum punda undanfarin sjö ár. Þá er Lubov Tsjernukhin einnig nefnd til sögunnar, eiginkona Vladimirs Tsjernukhins, gamals bandamanns Vladimirs Pútins. Hún á að hafa greitt 160.000 pund fyrir tennisleik með Boris Johnson og gefið að minnsta kosti 450.000 pund til flokksins í fyrra.

Spenna vegna þessa máls magnaðist þriðjudaginn 12. nóvember þegar þau boð bárust frá Verkamannaflokknum að gerð hefði verið „flókin og háþróuð“ netárás á netþjóna flokksins. Ekkert er vitað um árásaraðilann en athygli hefur oft beinst að rússneskum tölvuþrjótum í slíkum tilvikum.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …