Home / Fréttir / Bretland: Íhaldsflokkurinn með gott forskot

Bretland: Íhaldsflokkurinn með gott forskot

Boris Johnson
Boris Johnson

Íhaldsflokkurinn í Bretlandi mælist nú með 15 stiga forystu gagnvart Verkamannaflokknum, stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Könnunin er birt sunnudaginn 22. september í The Observer og fengi Íhaldsflokkurinn 37% í kosningum núna en Verkamannaflokkurinn 22%.

Könnunin er gerð nokkrum vikum eftir að Boris Johnson varð forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins. Um það leyti sem könnunin var gerð glímdi Johnson við innanflokksvanda þegar hluti þingflokks hans snerist gegn honum í neðri deild breska þingsins í atkvæðagreiðslu um brexit, útgöngu Breta úr ESB.

Nú í vikunni fellir Hæstiréttur Bretlands dóm í máli sem höfðað var til að fá úr því skorið hvort forsætisráðherrann gæti sent þingið heim í fimm vikur eins og hann hefur gert. Ráðherrann er sakaður um valdníðslu til að komast hjá umræðum um brexit. Johnson hafnar þessu og segist þurfa tóm til að undirbúa stefnu stjórnar sinnar í innanlandsmálum.

Áður en þingmenn voru sendir heim samþykktu þeir lög sem skylda Johnson til að fara þess á leit við forystumenn ESB að fá frekari útgöngufrest takist honum ekki að semja við ESB fyrir 31. október. Johnson segir að hann vilji frekar „liggja dauður í skurði“ en óska eftir nýjum fresti.

Niðurstöður könnunarinnar sem sagt er frá hér að ofan sýna að staða Boris Johnsons sé sterkari meðal kjósenda en meðal þingmanna. Þykja niðurstöðurnar enn einu sinni beina athygli að þeirri staðreynd að almenningur sé hlynntari tafarlausri útgöngu úr ESB en meirihluti þingmanna.

Innan Verkamannaflokksins deila menn hart um menn og málefni. Spjótin standa á Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins, sem þykir halda illa á málum og nýtur sáralítils stuðnings meðal almennings. Vinstrisinnaðir aðgerðarsinnar inna flokksins vinna nú að því að ýta Tom Watson, varaleiðtoga flokksins, til hliðar í sama mund og árlegur landsfundur flokksins hefst. Corbyn segir „óskhyggju“ ráða skoðun þeirra sem telja að hann sjálfur ætli að segja af sér sem flokksleiðtogi.

Johnson hefur tvisvar sinnum árangurslaust leitað eftir samþykki neðri deildarinnar við að þing verði rofið og gengið til kosninga fyrir 31. október þegar brexit-fresturinn líður.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …