
Í breska vikublaðinu Observer er sunnudaginn 3. febrúar birt niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir Íhaldsflokkinn með mestu forystu gagnvart Verkamannaflokknum sem hann hefur notið frá því í síðustu kosningum.
Kosningaúrslitin voru hörmuleg fyrir Íhaldsflokkinn og síðan hefur Theresa May leitt minnihlutastjórn íhaldsmanna með stuðningu DUP, smáflokks á Norður-Írlandi.
Í könnuninni núna tapaði Verkamannaflokkurinn sex stigum úr 40% í 34% en Íhaldsflokkurinn bætti við sig fjórum stigum úr 37% í 41%. Þetta gerist þrátt fyrir sífelld átök innan flokksins og ríkisstjórnarinnar vegna Brexit. Fyrir skömmu hlaut May verstu útreið nokkurs forsætisráðherra í þinginu í manna minnum.
Meirihluti aðspurðra er andvígur Brexit-samkomulaginu sem May hefur kynnt. Andstaðan hefur þó aðeins mildast. Nú telja 15% samning May góðan en 45% telja hann slæman. Í síðustu könnun töldu aðeins 12% samninginn góðan en 50% töldu hann vondan.
Flestir vilja frekar vera áfram í ESB en fara leið May. Væru greidd atkvæði um þessa tvo kosti nú mundu 45% styðja aðild að ESB en 38% leið May. Meðal íhaldsmanna vilja 55% að samningur May nái fram að ganga með stuðningi þingmanna flokksins, fyrir viku voru 48% þessarar skoðunar.
Könnunin sýnir að kjósendur hafa mjög ólík viðhorf til þess hvað gera skuli fallist þingmenn ekki á samning við ESB. Kæmi til þess telja 43% að fresta beri Brexit og efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um næsta skref. Á hinn bóginn telja 42% að Bretar eigi einfaldlega að yfirgefa ESB án samnings 29. mars 2019.
Undanfarna mánuði hafa kannanir sýnt flokkana með því næst jafnt fylgi. Í janúar hafði Verkamannaflokkurinn þriggja stiga forskot. Þessi könnun var gerð á netinu með þátttöku 2008 manns dagana 30. janúar til 1. febrúar.