Home / Fréttir / Bretland: Hugsanleg afskipti Rússa af brexit-atkvæðagreiðslunni ekki rannsökuð

Bretland: Hugsanleg afskipti Rússa af brexit-atkvæðagreiðslunni ekki rannsökuð

Þingmenn kynna Rússa-skýrsluna 21. júlí 2020.
Þingmenn kynna Rússa-skýrsluna 21. júlí 2020.

Breska ríkisstjórnin „forðaðist markvisst“ að láta kanna hvort Rússar hefðu afskipti af brexit-atkvæðagreiðslunni árið 2016 segir í skýrslu breskra þingmanna sem lengi hefur verið beðið um rússnesk áhrif í bresku stjórnmálalífi.

Fulltrúar úr leyniþjónustu og öryggismálanefnd, Intelligence and Security Committee (ISC), breska þingsins kynntu efni skýrslunnar á blaðamannafundi þriðjudaginn 21. júlí. Skoski þingmaðurinn Stewart Hosie, einn nefndarmanna, sagði „furðulegt“ að ríkisstjórnin hefði ekki látið fylgjast með hugsanlegum afskiptum af brexit-atkvæðagreiðslunni og bætti við að forsætisráðuneytið hefði „markvisst forðast“ það „vegna þess að þeir vildu ekki vita neitt“.

Í skýrslunni segir „erfitt að sanna“ ásakanir um að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þá er því bætt við að ríkisstjórnin hefði „dregið að viðurkenna að hættan væri fyrir hendi“ jafnvel eftir að vitneskja barst um rússnesk afskipti af bandarísku forsetakosningunum og atkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Skotlands árið 2014.

Hosie sagði að Rússar hefðu reynt að sá efasemdum um réttmæti úrslitanna í atkvæðagreiðslunni um aðskilnað Skota. Það hefði einkum verið gert í því skyni að grafa undan Bretlandi, Sameinaða konungdæminu, í augum rússnesks almennings.

Hann taldi að nauðsynlegt hefði verið að leggja mat á hvort Rússar beittu sér í brexit-atkvæðagreiðslunni. Viðbrögð breskra yfirvalda hefðu verið allt önnur en bandarískra vegna ásakana um afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016. Höfundar skýrslunnar telja að fara verði rækilega í saumana á því hvers vegna ráðherrar vildu ekki láta athuga þetta.

Í skýrslunni segir að morðið á Rússanum Alexander Litvinenko í London og innlimun Rússa á Krímskaga gefi „skýrt til kynna“ að Rússar virði ekki alþjóðalög.

Þegar þingmaðurinn Kevan Jones ræddi hvort hugsanleg afskipti Rússa af skosku atkvæðagreiðslunni hefði verið viðvörun til bresku ríkisstjórnarinnar sagði hann:

„Allt blasti þetta við í skosku atkvæðagreiðslunni. Hvað þurfti ríkisstjórnin meira til sjá þetta? Bíl með auglýsingaskilti fyrir utan bústaðinn í Downing-stræti. Í skýrslunni er staðan borin saman við það sem gerðist í Bandaríkjunum [þar sem afskipti Rússa voru rannsökuð] en hér var ekki tekin ákvörðun um það.“

Hann sakaði bresku ríkisstjórnina um að leggja sig ekki nóg fram til varnar lýðræðinu. Hafa yrði í huga að Rússar væru ekkert á förum í bráð.

Jones gagnrýndi forsætisráðherrann fyrir að hafa ekki birt skýrsluna fyrr auk þess hefði ríkisstjórnin undanfarna daga reynt að gera lítið úr skýrslunni.

Julian Lewis, formaður nefndarinnar, notaði lokaorð sín til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að tefja birtingu á skýrslunni. Þingmenn yrðu að fá tækifæri til að ræða hana á þingi.

Boris Johnson forsætisráðherra fékk skýrsluna í hendur 17. október 2019. Fyrst sagði ríkisstjórnin að ekki yrði unnt að birta skýrsluna fyrr en efni hennar hefði verið skoðað með tilliti til þjóðaröryggis. Þar með frestaðist birtingin fram yfir þingkosningarnar í desember 2019. Enn urðu tafir á birtingu vegna mannabreytinga í þingnefndinni.

Johnson tilnefndi fimm þingmenn Íhaldsflokksins í níu manna hópinn í von um að einhver þeirra sem hann handvaldi yrði nefndarformaður og stöðvaði framgang skýrslunnar og birtingu. Sá leikur misheppnaðist þegar liðhlaupi úr hópi íhaldsmanna var kjörinn nefndarformaður með stuðningi stjórnarandstöðunnar.

Stjórnarandstæðingurinn Lisa Nandy, skugga-utanríkisráðherra Verkamannaflokksins, spurði á Twitter: „Hvað stendur í Rússa-skýrslunni sem Johnson vill ekki að sjái dagsins ljós?“

Af hálfu Verkamannaflokksins eru þær sakir bornar á ríkisstjórnina að hún vildi ekki birta skýrsluna vegna þess að þá risu fleiri spurningar um tengslin milli Rússa og Brexit-sinna á árinu 2016. Boris Johnson var í brexit-forystunni.

Nefndarmennirnir Jones og Hosie hvöttu á blaðamannafundinum til þess að næsta skref ríkisstjórnarinnar í málinu yrði frekari rannsókn á Brexit-þættinum. Þeir vildu líka að breyta reglum um greinargerð manna í lávarðadeildinni um tekjur sínar. Segir í skýrslunni að í lávarðadeildinni séu menn sem hafi átt mikil fjárhagsleg samskipti við Rússa eða unnið beint fyrir rússnesk fyrirtæki með tengsl við rússneska ríkið.

Í skýrslunni er fjallað um gífurlegt streymi spillingarfjár frá Rússlandi til London eftir fall Sovétríkjanna árið 1991. Bretar hefðu fagnað þessum fjármunum án þess að spyrja nokkurs um uppruna þeirra. Rússneskir auðjöfrar hafi litið á Bretland sem sérstaklega hagstæðan stað fyrir sig og peningana sína.

Vegna þessa hefði orðið laundromat fest við London, auðvelt hefði verið að þvo ólögmæta peninga og koma þein í umferð.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …