
Tölvuárásir og tilraunir til að vega að lýðræðinu af þjóðum eins og Rússum eru grundvallarógn gegn bresku fullveldi sagði Alex Younger, forstjóri bresku leyniþjónustunnar MI6 eða Secret Intellegence Service (SIS), á fyrsta meiriháttar blaðamannafundi sínum fimmtudaginn 8. desember.
Fundurinn var haldinn í Vauxhall, höfuðstöðvum leyniþjónustunnar við Thames í London. MI6 er njósnastofnun Breta erlendis og heyrir undir utanríkisráðuneytið. MI5 heyrir undir innanríkisráðuneytið og sinnir leyniþjónustuverkefnum í Bretlandi.
Í ræðu sinni veittist Alex Younger að rússneskum stjórnvöldum fyrir að skapa mannlegan harmleik í Sýrlandi og varaði við hátækni undirróðri þeirra sem ógnaði Bretum.
Forstjórinn sem er jafnan nefndur C bar lof á útsendara MI6 sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að laumast inn í kjarna „morðóðu“ hryðjuverkasamtakanna Daesh (Ríki íslams) sem hann sagði enn undirbúa blóðugar árásir í Bretlandi.
Hann sagði að hvað sem liði Brexit, úrsögn Breta úr ESB, eða óvæntum sigri Donalds Trumps í Bandaríkjunum mundi samstarf Breta í öryggismálum við Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn aðeins styrkjast.
Younger varð forstjóri MI6 fyrir tveimur árum. Hann sagði að njósnarar stofnunarinnar stæðu frammi fyrir „sífellt hættulegra fyrirbrigði sem er blendingshernaður“.
Í þeim hernaði væri beitt tölvuárásum, ögrunum og áróðri til að valda uppnámi innan einstakra ríkja. Þessum hernaði beittu Rússar gagnvart þjóðum í vestri og hann hefði hafist fyrir alvöru eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga vorið 2014.
Hann sagði svo mikið í húfi vegna þessa hernaðar að í honum fælist grundvallarógn við fullveldi Breta. Younger sagði:
„Samhengið sem er kjarni alþjóðavæðingarinnar geta ríki nýtt sér í óvinveittum tilgangi án þess að viðurkenna það. Þau gera þetta eftir ólíkum leiðum eins og með tölvuárásum, áróðri eða undirróðri innan lýðræðiskerfisins.
Svo mikið er í húfi að um grundvallarógn við fullveldi okkar er að ræða; þetta ætti að vera öllum sem virða lýðræðisleg gildi áhyggjuefni.“
Younger sagði ógnina stafa frá ríkjum sem ættu „eigið líf undir styrk öryggismáttar síns“. Breskir njósnarar sem reyndu að vinna bug á ógninni stæðu frammi fyrir flóknum og hættulegum verkefnum sem væru „af þunga studd af þeim ríkjum sem reyna að ryðja okkur úr vegi“.
Forstjórinn gagnrýndi Rússa harðlega fyrir að styðja Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og sagði að í því fælist hætta á að átök mögnuðust enn milli öfgahópa í landinu. Hann sagði:
„Með því að kalla hvern þann sem er andvígur harðstjórn hryðjuverkamann hrekja þeir á brott hópana sem einmitt þarf að virkja til samstarfs til að sigra öfgamennina. Í Aleppo reyna Rússar og Sýrlandsstjórn að jafna allt við jörðu og kalla það frið. Mannlegi harmleikurinn vekur djúpa sorg.“
Hann sagði að Bretum væri ógnað af hópum vígamanna á borð við Daesh á meðan borgarastríð væri háð í Sýrlandi. Hann sagði að vildu Bretar komast hjá árás hryðjuverkamanna dygði ekki að „lyfta síkisbrúnni“ heldur yrðu þeir að „sækja gegn óvininum“.
Younger hafnaði fullyrðingum um að njósnarar MI6 hefðu siðareglur að engu og alrangt væri að hjá þeim „helgaði tilgangurinn meðalið“ hvað sem það kostaði.