Home / Fréttir / Bretar vilja halda í Indlandshafseyjar sínar

Bretar vilja halda í Indlandshafseyjar sínar

ga69z7eugvha1msie1ty80-2a5o8fxvjxq-pqr6bdew

Höfundur Kristinn Valdimarsson

Í suðvestanverðu Indlandshafi liggur eyjaklasinn Máritaníus.  Hann samanstendur af eyjunni Máritaníu og nokkrum öðrum eyjum.  Arabískir sjómenn fundu eyjarnar á miðöldum en settust þar ekki að.  Þær voru því mannlausar þegar portúgalskir sæfarar komu þangað árið 1507 og komu sér upp bækistöð.  Eyjaklasinn var undir hollenskri stjórn frá 1638 og gáfu þeir honum nafn sitt.  Hollendingar höfðu hins vegar ekki mikið upp úr veru sinni þar og yfirgáfu þeir Máritaníu árið 1710.  Fimm árum síðar eignuðu Frakkar sér eyjarnar og réðu þeir þeim þar til í Napóleonsstyrjöldunum en árið 1810 réðust Bretar á þær og tóku yfir stjórn þeirra.  Eftir síðari heimsstyrjöldina höfðu Bretar ekki lengur getu (og áhuga) á að halda úti heimsveldi sem leiddi m.a. til þess að Máritaníus hlaut sjálfstæði árið 1968.  Nokkrum árum áður höfðu bresk stjórnvöld skilið nokkrar af þeim eyjum sem tilheyrðu Máritaníus frá þeim og stofnað breska Indlandshafssvæðið (e. British Indian Ocean Territory (BIOT)) sem inniheldur einnig nokkrar eyjar sem tilheyrðu Seycelleseyjum.  Ólíkt fyrrnefndum tveimur eyríkjum þá er BIOT ekki ferðamannaparadís.  Í raun er ferðamönnum, og öllum öðrum, meinaður aðgangur að svæðinu.  Þetta kemur til af því að á Diego Garcia, sem er stærsta eyjan á BIOT, er bresk/bandarísk herstöð.  Starfsemi hennar er afar leynileg en þó er vitað að bæði bandaríski flotinn og flugherinn hafa nýtt stöðina í aðgerðum.

BIOT svæðið tengist þó ekki aðeins öryggismálum en árið 2010 komu stjórnvöld í London á fót umhverfisverndarsvæði í kringum eyjarnar.  Það er 640 þúsund ferkílómetrar að stærð eða rúmlega sex sinnum stærra en Ísland.  Um er að ræða eitt stærsta verndarsvæði í veröldinni.    Márítanísk stjórnvöld hafa áhuga á að nýta svæðið og hafa þau kært Breta fyrir brot á hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.   Deila af þessu tagi ætti að hljóma kunnuglega í eyrum Íslendinga.

Stjórnvöld í Máritaníus hafa einnig verið ósátt við eignarnám Breta á BIOT eyjum m.a. á þeim forsendum að ólöglegt hafi verið að flytja eyjaskeggja af þeim þegar BIOT svæðinu var komið á fót.  Þeir fengu bætur en ekki eru allir sáttir við þau málalok.  Þann 22. maí síðastliðinn samþykkti alsherjarþing Sameinuðu þjóðanna með yfirgnæfandi meirihluta að taka undir álit alþjóðadómstólsins frá því í febrúar síðastliðnum.  Það kvað á um að Bretar ættu að gefa eftir yfirráð sín yfir BIOT svæðinu.  Ályktanirnar eru ekki bindandi og Bretar sýna ekki á sér neitt fararsnið.  Þrýstingur hefur hins vegar aukist á stjórnvöld í London að komast að samkomulagi um svæðið við stjórnvöld í Máritaníus.  Ef herstöðvunum yrði lokað myndi það draga úr getu Bandaríkjamanna til þess að bregðast við hættum í Asíu og Mið-Austurlöndum enda er herfræðileg lega Diego Garcia ákjósanleg.  Bandarísk hernaðaryfirvöld þurfa hins vegar ekki að gefa herstöðina upp á bátinn alveg strax því jafnvel þó svo fari að Bretar leysi upp Indlandseyjasvæði sitt þá kynnu stjórnvöld í Máritaníus að leyfa Bandaríkjamönnum (og Bretum) að halda stöð sinni opinni.  Reikna má með því að það slái á ótta ríkjanna tveggja að staða mála í Máritaníus er prýðileg.  Ríkið telst lýðræðisríki og er efnahagur landsins traustur.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …