
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, skrifaði miðvikudaginn 11. maí undir yfirlýsingu um öryggistryggingu með Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svía, nokkrum dögum áður en þess er vænst að sænska ríkisstjórnin tilkynni ákvörðun sína um að sækja um aðild að NATO.
Forsætisráðherrarnir hittust á opinberu sveitasetri sænska forsætisráðherrans í Harpsund um 100 km fyrir vestan Stokkhólm.
Heiti skjalsins sem var undirtað ber fyrirsögnina: Pólitísk yfirlýsing um samstöðu. Ríkin heita gagnkvæmri aðstoð verði ráðist á annað þeirra.
„Verði annað hvort ríkið fyrir stórslysi eða árás munu Bretland og Svíþjóð, að beiðni þess ríkis sem á undir högg að sækja, aðstoða hvort annað á ýmsan hátt og kann í því efni að verða gripið til hernaðarlegra úrræða,“ segir í texta yfirlýsingarinnar.
Þar er einnig að finna þetta skilyrði: „Aukin samvinna af þessu tagi verður að öllu leyti í samræmi við öryggis- og varnarstefnu hvors ríkis og henni er ætlað verða til viðbótar en ekki koma í stað núverandi samstarfs í Evrópu eða á Evró-Atlantshafssvæðinu.“
Í fréttatilkynningu sem breska ríkisstjórnin sendi frá sér og skoða ber sem hluta þess um var rætt milli ráðherranna bjóðast Bretar einnig til að senda herskip, hermenn og orrustuþotur til Norðurlandanna.
Á blaðamannafundi eftir undirritun yfirlýsingarinnar sagði Andersson að í samræmi við hana mundu Bretar leggja til „herafla“ yrði ráðist á Svíþjóð, jafnvel þótt Svíar ætluðu ekki að sækja um aðild að NATO.
Fyrir utan skuldbindinguna um aðstoð að ósk Svía felst einnig í yfirlýsingunni að njósnastofnanir landanna munu skiptast á trúnaðarupplýsingum, efnt verður til sameiginlegra heræfinga, unnið saman við þróun á tækni og spornað sameiginlega við netárásum.