Home / Fréttir / Bretar varaðir við refsivendi ESB

Bretar varaðir við refsivendi ESB

2016-10-05-1475670108-7560650-brexit1

Bretar hafa sagt skilið við Evrópusambandið og verða búa sig undir árásir hefnigjarnra búrókrata sem munu reyna að refsa þeim í Brexit-viðræðunum segir fyrrverandi innanbúðarmaður í skrifstofuveldi ESB sem hefur mátt þola 17 ára þrengingar eftir að hafa risið gegn búrókrötunum.

Robert McCoy var árum saman látinn sæta hörðu með alls kyns hótunum og skömmum af hálfu embættismannakerfisins í Brussel eftir að hann neitaði að árita grunsamlega reikninga Héraðanefndarinnar, það er héraðaþings ESB.

Harðræðið sem hann var beittur var svo mikið að McCoy, 67 ára, var greindur með áfallastreituröskun áður en hann var neyddur til að hverfa úr draumastarfi sínu sem eftirlitsmaður með fjármálum þingsins.

„Það er litið á það sem drottinssvik innan ESB að skapa sér sérstöðu,“ sagði McCoy í einkaviðtali við The Sunday Telegraph 24. september, daginn áður en fjórða lotan í Brexit-viðræðunum hófst. „Allir verða að falla í sama mótið.“

Í viðtalinu segir McCoy: „Mér sýnist líklegt að Bretar verði beittir svipaðri refsingu og ég hlaut, mér heyrist það á óánægjunni hjá Barnier [formanni Brexit-viðræðunefndar ESB]. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér og að Brexit verði báðum aðilum til framdráttar.“

Michel Bariner hefur sagt að ESB ætli ekki að refsa Bretum vegna úrsagnarinnar en heldur fast í þá afstöðu að staða þeirra gagnvart ESB verði þeim óhagstæðari eftir úrsögn en aðild að sambandinu.

Fjórða lota í fyrsta áfanga Brexit-viðræðnanna hefst mánudaginn 25. september en þar verður reynt að leysa úr hnútnum sem rekja má til fjárkrafna ESB á hendur Bretum. Föstudaginn 22. september bauð Theresa May, forsætisráðherra Breta, 20 milljarða evru greiðslu af hálfu Breta en ESB hefur í huga allt að 100 milljarða evra.

„Hvers vegna ættum við að gefa fé til stofnunar sem hefur hvað eftir annað sýnt að henni er um megn að takast á við úrlausnarefni sem rekja má til fjársvika og óreiðu,“ spurði McCoy. „Þeir kunna ekki að skammast sín og það er næstum ógerningur að gera umbætur á kerfinu.“

Árið 2000 komst McCoy að þeirri niðurstöðu að innan stjórnarskrifstofu Héraðanefndarinnar væri „kerfislæg og forkastanleg vanhæfni“.

„Mig grunaði að þar væru stunduð fjársvik sem næðu til hundruð þúsunda og óttaðist að það væri aðeins toppurinn á ísjakanum, þetta gætu auðveldlega verið milljónir,“ sagði hann.

Hann var beittur miklum þrýstingi til að sópa hneykslinu undir teppið en frá því skýrði The Sunday Telegraph árið 2003.

„ESB er heilög kýr sem ekki má gagnrýna. Mér var sagt að mál af þessu tagi gæti fólk notað gegn sambandinu, þau kynnu jafnvel að fæla þjóðir frá að ganga í sambandið,“ sagði McCoy.

Árið 2007 var McCoy flæmdur frá Héraðanefndinni og laun hans lækkuð um 40%. Hann hefur síðan átt í málaferlum við fyrrverandi atvinnurekanda sinn og varið öllu sparifé sínu í málskostnað. „Þetta minnir bara á Kafka. Menn vinna aldrei sigur á búrókrötunum.“

OLAF, gagn-spillingarskrifstofa ESB, sendi frá sér skýrslu árið 2003. Hún var ekki birt opinberlega en var notuð sem grundvöllur fyrir ályktun á ESB, einni af sjö sem þingið hefur fjallað um til stuðnings McCoy.

Í ályktuninni sagði ESB-þingið að fyrir lægi vitneskja um „kerfisbundna vanhæfni og virðingarleysi fyrir grundvallarreglum um meðferð fjármuna, þar á meðal dæmi um fjársvik og gervi-tilboð“.

Deild innan ESB-dómstólsins sem fjallaði um starfsmannamál hjá ESB komst í maí 2013 að þeirri niðurstöðu að McCoy hefði má þola „markvissa og skipulega útskúfun og illa meðferð“.

Ári síðar töldu sömu dómarar að Héraðanefndin hefði gerst sek um „ólögmæta hegðun“ og „skort á eðlilegri umhyggju“ í samskiptum sínum við McCoy. Nefndinni var gert að greiða honum 20.000 evrur í bætur og standa undir málskostnaði.

Á árinu 2015 hélt þingið hjá sér 20.000 evrum af 474.000 evru framlagi til Héraðanefndarinnar og sakaði hana um „grimmilega hefnd“ gegn McCoy.

McCoy er enn með mál gegn ESB við ESB-dómstólinn í Lúxemborg til að fá Héraðanefndina dæmda fyrir að flæma sig frá störfum á fölskum forsendum.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …