
Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins í Bretlandi, sakar Boris Johnsons um að „gefa eftir“ í einu af höfðumálinu, réttinum til fiskveiða, sem hindrað hefur viðskiptasamning Breta og ESB vegna brexit.
Á vefsíðunni The Telegraph segir miðvikudaginn 30. september að fyrr þann sama dag hafi komið í ljós að breska ríkisstjórnin bjóði fiskveiðiþjóðum ESB þriggja ára umþóttunartími til að minnka stig af stigi veiðar sínar innan breskrar lögsögu áður en þar séu settir nýir veiðikvótar.
Um svipað leyti og fréttir bárust um þetta sagði Simon Coveney, utanríkisráðherra Íra, sem breskir brexit-sinnar telja meðal höfuðfjandmanna sinna, að líkur á að viðskiptasamningur næðist hefðu aukist: „Ekki er um óyfirstíganlegar hindranir að ræða. Við ættum að geta náð saman um þennan samning.“
Breska stjórnin kynnti ESB fiskveiðitillögur sínar í skjali sem afhent var Michael Barnier, aðalsamningamanni ESB, persónulega. Þegar fréttir bárust um tillögurnar stóð ekki á viðbrögðum frá Nigel Farage sem sagði:
„ESB-samningur nálgast þegar Bretar gefa eftir í fiskveiðimálum. Ég barðist ekki fyrir þriggja ára umþóttunartíma fyrir skip ESB. Við höfum þegar beðið í fjögur ár.“
Í frétt The Telegraph segir að breskir ráðherrar hafi ávallt sagt að Bretar „tækju stjórnina aftur í sínar hendur“ í lögsögu sinni þegar aðskilnaðarsamningurinn við ESB rennur sitt skeið í desember 2020. Vitnað er í Boris Johnseon sem sagði: „Við munum tryggja að við semjum ekki frá Bretum fiskveiðiréttinn eins og til dæmis var gert í aðildarviðræðunum snemma á áttunda áratugnum. Verið ekki með áhyggjur vegna fisks.“
Sé málum þannig komið að Bretar „dragi í land“ er líklegt að það veki hörð viðbrögð breskra sjómanna og þingmanna strandhéraða þar sem menn hafa vænst þess að hagnast á að Bretar segi sig undan sjávarútvegsstefnu ESB.
Síðdegis miðvikudaginn 30. september sagði opinber talsmaður breska forsætisráðherrans að ríkisstjórnin samþykkti ekki tillögur sem svipti Breta fullveldi yfir fiskimiðum þeirra.
Hann minnti á að einmitt núna hefðu Bretar gert fyrsta sjálfstæða fiskveiðisamning sinn í 40 ár. Samningurinn er við Norðmenn og ætla þjóðirnar að efna til árlegra viðræðna og samninga um veiðikvóta sína.
The Telegraph segir að Nigel Farage og brexit-félagar hans haldi að sér höndum í bili til að sjá hvort þessi tilhliðrun af hálfu Breta leysi ESB-viðræðuhnútinn eða sé aðeins upphaf málamiðlanna sem kynnu að skapa Boris Johnson vanda í eigin þingflokki.