Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, tilkynnti miðvikudaginn 20. janúar eftir fund með Antoni Macierewicz, varnarmálaráðherra Póllands, í Edinborg að Bretar mundu senda nær 1.000 hermenn til NATO-æfinga í Póllandi. Kemur ákvörðun Breta til móts við óskir Pólverja um meiri og fasta viðveru NATO-herliðs í landi þeirra.
Utanríkisráðherra Breta, Philip Hammond, og utanríkisráðherra Póllands, Witold Waszczykowski, sátu einnig fundi með varnarmálaráðherrunum í Edinborg. Var um árlegan samráðsfund ráðherra landanna að ræða þar sem þeir bera saman bækur um meginstrauma í utanríkis- og öryggismálum.
Pólverjar sækja fast að bandamenn þeirra innan NATO haldi úti herafla í landinu sínu í ljósi yfirgangsstefnu Rússa.
Samskipti breskra og rússneskra stjórnvalda hafa verið stirð um nokkurt skeið og talið er líklegt að þau verði enn stirðari fimmtudaginn 21. janúar þegar birt verður skýrsla um hvernig dauða Alexanders Litvinienkos, fyrrv. KGB-njósnara, bar að höndum. Hugsanlegt er að útsendarar rússneskra stjórnvalda hafi verið þar að verki en eitrað var fyrir honum með plútóníum 210, sjaldgæfum geislavirkum ísótópa sem aðeins er framleiddur í kjarnorkustöðvum undir stjórn Rússa.
Í The Guardian hefur verið sagt frá því að breskir stjórnarerindrekar hafi hvatt David Cameron forsætisráðherra til að grípa ekki til efnahagsþvingana þótt í ljós komi að Rússar hafi drepið Litvinienko. Þeir óttast að það kunni að spilla enn fyrir því að árangur náist á öðrum stærri sviðum samskipta Breta og Rússa þar á meðal við leit að lausn á borgarastríðinu í Sýrlandi.