Home / Fréttir / Bretar óttast að Rússar valdi tjóni á neðansjávarstrengjum

Bretar óttast að Rússar valdi tjóni á neðansjávarstrengjum

 

Kortið sýmir leiðir neðansjávarstrengja.
Kortið sýmir leiðir neðansjávarstrengja.

Æðsti yfirmaður breska hersins, Sir Stuart Peach, varar við hættunni á að Rússar valdi skaða á fjarskipta- og netsrengjum í hafdjúpunum. Hann segir að Bretar og NATO verði að forgangsraða til að vernda betur neðansjávarstrengi.

Í ræðu sem Sir Stuart Peach flutti hjá Royal United Services Institute (RUSI) breskri hugveitu um öryggismál, fimmtudaginn 14. desember sagði hann að yrðu þessi strengir eyðilagðir hefði það „samstundis og hugsanlega hörmuleg“ áhrif á atvinnu- og efnahagslíf.

Hann telur að skortur á öryggisráðstöfunum vegna neðansjávarstrengja geti skortur geti „kallað nýja hættu yfir þjóðlíf okkar“. Þá sagði hann:

„Sem svar við hættunni sem stafar af endurnýjun rússneska herflotans hvort heldur litið er til kjarnorkuknúinna eða venjulegra kafbáta og skipa höfum við ásamt bandamönnum okkar við Atlantshaf ákveðið að forgangsraða í þágu verkefna sem snúa að vörn samgönguleiða á hafi úti.“

Hann sagði „mjög, mjög mikilvægt“ að átta sig á hve miklu þetta verkefni skipti fyrir NATO:

„Vegna þess að auk þess sem Rússar eignast ný skip og kafbáta leggja þeir sig fram um að styrkja getu sína til að stunda óhefðbundnar aðgerðir og upplýsingahernað. Ný hætta steðjar að þjóðlífi okkar vegna þess hve viðkvæmir strengirnir eru sem teygja sig í allar áttir á hafsbotni.

Getið þið gert ykkur í hugarlund hvað gerðist ef hoggið yrði á þessa strengi eða þeim raskað, það hefði samstundis og hugsanlega hörmuleg áhrif á atvinnu- og efnahagslíf okkar og annað daglegt líf.“

Jonathan Beale, varnarmálasérfræðingur BBC, segir vaxandi ótta við að Rússar hleri neðansjávarstrengi eða eigi við þá á einhvern hátt. Það stafi ekki aðeins af meiri umsvifum kafbáta þeirra heldur vilja til að stunda óhefðbundinn hernað með nýjum aðferðum.

Í ræðu sinni hafi Sir Stuart Peach viðurkennt að Bretar og bandamenn þeirra í NATO væru illa undir það búnir að takast á við slíka árás.

Beale bendir á að kafbátaumsvif Rússa hafi aukist á Norður-Atlantshafi, einkum í GIUK-hliðinu. Bretar ráði ekki yfir skipum, kafbátum eða flugvélum til að fylgjast nægilega vel með því sem þarna gerist. Þar til þeir fái nýjar eftirlitsflugvélar verði þeir að treysta á aðstoð annarra við kafbátaleit.

Breska hugveitan Policy Exchange hefur nýlega sent frá sér skýrslu um neðansjávarstrengi og öryggi þeirra eftir íhaldsþingmanninn Rishi Sunak. Niðurstaða hans er að vel heppnuð árás á neðansjávar-netkerfið sem Bretar nota mundi verða „lamandi högg“ fyrir öryggi og efnahag þeirra. Hann segir að lega strengjanna sé „bæði einangruð og á almanna vitorði“ og með árás á þá yrði stoðunum kippt undan öryggi Breta.

Bandaríski flotaforinginn James Stavridis,fyrrv. yfirmaður herstjórnar NATO, segir í formála skýrslunnar: „ Það eru ekki gervihnettir hátt á himni heldur leiðslur á hafsbotni sem eru bakhjarl heimsbúskaparins.“

Hann segir ekki aðeins þörf á að hafa áhyggjur af fyrirætlunum Rússa heldur einnig Kínverja og Írana. Hann hvetur til þess að lagðir séu fleiri „skugga-strengir“ til vara og segir að NATO verði að gera ráðstafanir til að verja neðansjávarstrengi um heim allan sé það nauðsynlegt.

Í skýrslunni frá Policy Exchange eru nefnd 213 sjálfstæð kapla- eða strengjakerfi neðansjávar um heim allan. Þar er um 877.121 km langa ljósleiðara að ræða. Þá er tekið fram að þar sem ekki sé um formlega eign einstakra ríkja að ræða njóti þeir ekki mikillar verndar að alþjóðalögum. Um 97% allra fjarskipta og um 10 trilljón dollara viðskipti fara daglega um neðansjávarstrengi. Lengd strengjanna dugar til að þeim má vefja 22 sinnum utan um jarðarkringluna.

Heimild: BBC

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …