Home / Fréttir / Bretar opnuðu Áströlum leið til Washington

Bretar opnuðu Áströlum leið til Washington

Fjarfundur um stofnun AUKUS.

Franski Evrópumálaráðherrann og ýmsir franskir fjölmiðlamenn ráðast harkalega á bresku ríkisstjórnina fyrir „tækifærismennsku“ og segja hana  „boðflennu“ með því að viðra sig upp við Bandaríkjamenn og þykjast gjaldgeng í nýtt varnarsamstarf með þeim og Áströlum, AUKUS.

The New York Times (NYT) dregur upp aðra mynd af Bretum og hlut þeirra í ákvörðun Ástrala að segja upp samningi við Frakka um smíði tólf dísel-kafbáta og semja við Bandaríkjkamenn um smíði átta kjarnorkuknúinna kafbáta.

Í grein í NYT dags. 18. september segir Mark Landler að Bretar birtist sem „óvæntur sigurvegari“ (e. unlikely winner) í nýju flota-öryggisbandalagi, AUKUS, (Ástralía, Bretland (UK) og Bandaríkin (US).)

Haft er eftir embættismönnum í London og Washington að breska ríkisstjórnin hafi á fyrstu stigum lagt grunn að þríhliða bandalaginu með Bandaríkjamönnum og Áströlum sem fjölgar kjarnorkuknúnum kafbátum í Kyrrahafi. Þetta hafi leitt til þess að Ástralar slitu 66 milljarða dollara samningi við Frakka við ofsareiði í París en gleði í London.

NYT segir Breta hafa leitað fyrir sér um nýja stöðu á alþjóðavettvangi frá því að þeir sögðu skilið við ESB fyrir um 18 mánuðum. Stuðningsmenn ESB-úrsagnar notuðu slagorðið Global Britain – hnattrænt Bretland. Þótti ýmsum það fremur líkjast söluslagorði en lýsingu á heilsteyptri utanríkisstefnu.

Við blasi nú að samningurinn sem gerður var miðvikudaginn 16. september um að selja Áströlum hátækni-kjarnorkukafbáta staðfesti Breta sem herveldi, sérhæft á sviði kjarnorku, og einnig sem trausta bandamenn Bandaríkjamanna. Samningurinn ýtir einnig undir trú á að Boris Johnson og stjórn hans takist að ná fótfestu í Asíu. Margir hafa talið það markmið óraunhæfan draum um að endurheimta eitthvað sem minnti á gamla breska heimsveldið.

Bretar hafa nú gert viðskiptasamninga við Ástrala, Japana og Suður-Kóreumenn og sent flugmóðurskip á vettvang til að aðstoða Bandaríkjamenn við að hafa auga með Kínverjum á Suður-Kínahafi þar sem Kínverjar sýna drottnunarvilja sinn með herstöðvakeðju.

Að sögn breskra embættismanna höfðu Ástralar fyrst samband við Breta og nefndu að Bretar og Bandaríkjamenn legðu þeim lið við að eignast kjarnorkuknúna kafbáta. Þeim dygði ekki til frambúðar að eiga díselknúna kafbáta frá Frakklandi, ógnin af Kínverjum ykist jafnt og þétt.

Bretar hafa átt náið samstarf í kjarnorkumálum við Bandaríkjamenn frá samningi um varnarsamstaf árið 1958. Það lá því hlutarins eðli að þjóðirnar ættu samleið gagnvart Áströlum í þessu efn. Bandaríkjamenn leggja til úraníum í kjarnakljúfa bátanna og Bretar hátæknibúnað sem Ástralar þekkja betur en bandarískan búnað.

Embættismennirnir sögðu að Bretar og Ástralar hefðu sótt fast að Bandaríkjamönnum vegna málsins. Boris Johnson forsætisráðherra hefði til dæmis rætt það við Joe Biden Bandaríkjaforseta þegar leiðtogar G7-ríkjanna hittust á Cornwall í Englandi í júní 2021. Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti sátu fundinn á Cornwall.

Það hefði orðið að sannfæra Bandaríkjamenn um að Ástralar ættu auðveldara með viðskipti við þá með aðstoð Breta vegna þess að Ástralar væru vanir að sigla skipum sem treystu á tæknibúnað frá Bretum.

Boris Johnson sagði árið 2016 að utan Evrópusambandsins gætu Bretar beitt sér á sjálfstæðari hátt gagnvart Kínverjum en innan þess. Það var áður en kínverskir kommúnistar tóku öll völd í Hong Kong og brutu andstöðu lýðræðissinna þar á bak aftur.

Nú eru Bretar og Bandaríkjamenn samstiga að nær öllu leyti í afstöðu sinni til Kínverja.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …