Home / Fréttir / Bretar og Frakkar stilla saman strengi í varnarmálum

Bretar og Frakkar stilla saman strengi í varnarmálum

 

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta.
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta.

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, var í París miðvikudaginn 3. júní og hitti Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakklands. Blaðamaður Le Monde ræddi við Fallon sem sagði að Bretar mundu áfram láta að sér kveða hernaðarlega um heim allan enda væru útgjöld þeirra til varnarmála hin fimmtu hæstu í heimi og hæstu í Evrópusambandinu.

Le Monde  segir að Frakkar og Bretar hafi árið 2010 gert samning um  samvinnu í varnarmálum sem kenndur er við Lancaster House í London. Þar er staðfestur vilji ríkjanna til að eiga hernaðarlegt samstarf þótt þau fylgi ekki sömu stefnu gagnvart Evrópusambandinu.

Í París ræddu ráðherrarnir stefnuna gagnvart Íslamska ríkinu, aðgerðir vegna farandfólks á leið yfir Miðjarðarhaf, stöðuna á Sahel-svæðinu í Afríku (Súdan) og baráttuna við Boko Haram í Nígeríu.

Breska ríkisstjórnin stefnir að 18 milljarða evru niðurskurði á ríkisútgjöldum. Þá er unnið að endurskoðun á varnarstefnu Breta sem á að ljúka fyrir lok þessa árs, 2015. Le Monde spurði breska ráðherrann hvernig þetta tvennt færi saman. Hann sagði að allir yrðu að taka þátt í að eyða ríkissjóðshallanum. Í franska blaðinu er minnt á að Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefði lýst áhyggjum yfir hugsanlegum niðurskurði hjá þessum „einstæða bandamanni“.

Hinn 1. júní 2015 sagði Carter í samtali við BBC: „Boðskapur minn til starfsbróður míns í London – eins og til þeirra í öllum NATO-ríkjunum – er að standa við skuldbindingarnar sem þeir hafa allir samþykkt.“ Vísaði hann til þess að útgjöld til varnarmála nemi 2% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Fallon sagði: „Við munum ná 2% þegar sjö af 28 aðildarríkjum [NATO] ná ekki 1% og 20 þeirra ná ekki yfir 1,5%. Útgjöld Breta eru hærri en Frakka, miklu hærri, hvernig sem reiknað er. Þegar kallað er á Stóra-Bretland svarar það.“ Útgjöld Frakka eru 1,8% af VLF. Bretar benda á að ákvörðun François Hollandes Frakklandsforseta um að leggja 3,8 milljarða evra til viðbótar til hermála dugi ekki til að ná 2% markinu. Í London hallast allir sérfræðingar að því að árið 2020 fái breski herinn ekki meira en 1,8% af VLF í sinn hlut, segir Le Monde.

Minnt er á að í kosningastefnuskrá sinni hafi breskir íhaldsmenn gefið þrjú víðtæk fyrirheit: endurnýjun á kjarnorkuheraflanum með smíði fjögurra nýrra kjarnorkukafbáta, 1% raunaukningu á ári til kaupa á vígbúnaði og lyktir niðurskurðar á fjölda virkra hermanna en þeir eru nú 82.000.

Malcolm Chalmers, sérfræðingur hjá hugveitunni Royal United Services Institute (RUSI), segir að kosningaúrslitin í Bretlandi hafi getið af sér þverstæðu: „Annars vegar hefur Íhaldsflokkurinn gefið ótvírætt loforð um að binda enda á niðurskurð á útgjöldum til varnarmála sem stundaður hefur verið síðustu fimm ár. Hins vegar blasir við vaxandi þjóðerniskennd sem veldur því að fara þarf yfir háan þröskuld sé vilji til að grípa til hervalds, einkum ef hætta er á mannfalli.“ Bresk stjórnvöld gefa til kynna að þau haldi úti 15.000 manna herliði víðsvegar um heim. Rauntala um breska hermenn sem taka aðgerðum er nær 4.500, segir í Le Monde.

Franska blaðið segir að breski varnarmálaráðherrann vilji sameiginlegar aðgerðir með Frökkum til að nýta fjármuni sína betur og hann hafi í ferð sinni til Parísar sérstaklega nefnt eftirlit með drónum í Afríku, t.d. Níger, Tjad og Líbíu auk Mið-Austurlanda.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …