Home / Fréttir / Bretar lofa Zelenskíj aukinni hernaðaraðstoð

Bretar lofa Zelenskíj aukinni hernaðaraðstoð

Vladimir Zelenskíj og Rishi Sunak ræða saman á sveitasetri breska forsætisráðherrans, Chequers, mánudaginn 15, maí 2023.

Vladimir Zelenskíj Úkraínuforseti hitti Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, að morgni mánudags 15. maí á ferð sinni um Evrópu sem hófst fyrir helgi á Ítalíu.

Ferð forsetans á milli evrópskra höfuðborga í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins hér í Reykjavík þriðjudag og miðvikudag, 16. og 17. maí, bendir til að samhliða því sem hann ræðir um hernaðarlegan stuðning við Úkraínu beri önnur mál hátt. Á fundi með Frans páfa í Róm laugardaginn 13. maí ræddi Zelenskíj hugsanlegan friðarsamning til að binda enda í Úkraínustríðið.

Yfirmaður í her Úkraínu sagði mánudaginn 15. maí að hermenn hans hefðu hrakið rússneska herinn frá nokkrum stöðvum hans í og við bæinn Bakhmut í austurhluta Úkraínu. Um bæinn hefur verið barist mánuðum saman og hefur hann orðið eins konar tákn fyrir seiglu Úkraínuhers gagnvart her Rússa annars vegar og Wagner-málaliðum Rússa hins vegar.

„Síðustu dagar hafa sýnt að við getum sótt fram og brotið óvininn á bak aftur jafnvel við ótrúlega erfiðar aðstæður. Aðgerðum til varnar Bakhmut verður haldið áfram. Allar nauðsynlegar ákvarðanir í þágu varnanna hafa verið teknar,“ sagði Oleksandr Syrskíj hershöfðingi á Telgram upplýsingasíðu hers Úkraínu 15. maí.

Eftir að hafa hitt Frans páfa og ítalska stjórnarleiðtoga laugardaginn 13. maí hélt Zelenskíj forseti til Berlínar sunnudaginn 14. maí og þaðan síðdegis til Parísar áður en hann hitti Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, 15. maí.

Sunak hét Zelenskíj að láta her hans í té hundruð flugskeyta til viðbótar og árásardróna. Þá ætla Bretar að þjálfa úkraínska orrustuflugmenn en ekkert hefur verið ákveðið um að afhenda þeim orrustuþotur.

Breski forsætisráðherrann sagði þetta úrslitastund í andspyrnu Úkraínumanna gegn tilefnislausri árás á þá. Alþjóðasamfélagið mætti ekki bregðast þeim andspænis miskunnarlausum óvini.

Bretar ætla að láta Úkraínuher í té „langdræga árásardróna“ sem draga meira en 200 km. Í liðinni viku sögðust Bretar hafa sent Storm Shadow stýriflaugar til Úkraínu en þeim má skjóta á skotmörk í meira en 250 km fjarlægð. Þá hafa Bretar sent Challenger orrustuskriðdreka til Úkraínu og þjálfað meira en 15.000 úkraínska hermenn í Bretlandi.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …